Vaxtarrýmisgrunngildi kræklings (Mytilus edulis) á fjórum svæðum við Ísland.
Útlit er fyrir aukningu í skipaumferð á norðurslóðum þegar heimskautaísinn minnkar. Líklegt er að ónýttar olíu- og gasauðlindir í Norðurhafi og Norður-Íshafi verði nýttar í framtíðinni og má því búast við auknu mengunarálagi á norðurslóðum m.a. af völdum PAH efna sem finnast t.d í olíum. Því er mikilvægt að kanna grunnástand sjávarlífvera áður en til aukins álags kemur og afla ítarlegri upplýsinga um áhrif olíusambanda á sjávarlífverur. Rannsóknirnar fóru fram í nóvember 2011 á Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurnesjum í Sandgerði. Vaxtarrými (Scope for growth) var metið hjá kræklingi (Mytilus edulis) til að mæla grunngildi vaxtarrýmis hjá kræklingi frá ólíkum svæðum við Ísland. Kræklingi var safnað á Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi, Álftafirði á Vestfjörðum og Mjóafirði á Austurlandi og Ísafjarðarhöfn á Vestfjörðum. Kræklingur frá Álftafirði og Mjóafirði mældist með hæstu vaxtarrýmisgildin, reyndust þau marktækt hærri en hjá kræklingi úr Ísafjarðarhöfn og frá Bjarnarhöfn.. Kræklingur úr Ísafjarðarhöfn virðist betur á sig kominn en vænta mátti, líklega má rekja það til mikils fæðuframboðs sem gæti skýrt meira þol gagnvart mengandi efnum í umhverfinu. Mat á vaxtarrými kræklings frá ólíkum svæðum við Ísland dugar ekki eitt og sér til að greina mengunarálag. Líklegt er að ólíkar umhverfisaðstæður á svæðunum (skýldar aðstæður, fæðuframboð) sem endurspeglast í mismunandi ástandsstuðlum dýranna, útskýri ólík vaxtarrýmisgildi óháð mengunarálagi.