Trichodina bifdýr í amerísku hörpuskelinni Placopecten magellanicus
Bifdýr (Ciliata) af ættkvíslinni Trichodina eru vel þekktar gisti- eða sníkjulífverur á fiskum. Trichodina bifdýrum í samlokum (Bivalvia) hefur ekki verið gefinn eins mikill gaumur. Markmið þessa verkefnis var að rannsaka tilvist og tíðni Trichodina bifdýra í amerísku hörpuskelinni Placopecten magellanicus (Bivalvia) og lýsa bifdýrunum.
Villtum P. magellanicus skeljum (n = 22; meðalhæð 11,6 cm) var safnað í Bay of Fundy við austurströnd Kanada 2012. Leitað var að bifdýrum á tálknum og á líffærum (labial palps/mouth lips) við munnop.
Trichodina bidýr fundust í öllum skeljunum, tíðni (prevalence) á tálknum var 90% og á líffærum við munnop einnig 90%. Fjöldi bifdýranna virtist ekki ýkja mikill, þó sáust oft tugir dýra í skrapi af líffærunum á smásjárglerjum. Bifdýrin voru meðalstór miðað við stærð Trichodina tegunda almennt. Þvermál þeirra var 55-72 µm, þvermál festilíffæris 48-59 µm, þvermál festikrókakrans 26-35 µm, fjöldi króka 22-27, fjöldi teina á hvern krók 9-10, þvermál miðjuhrings 14-16 µm. Stóri kjarni hafði C-lögun, var 52-57 µm í þvermál og bil milli enda kjarnans var 15-21 µm. Bifdýrin höfðu áberandi og óvenju stórar herpibólur. Bifháraspírall myndaði 390° feril.
Rannsóknin leiðir í ljós að Trichodina bifdýr eru algeng í amerísku hörpuskelinni P. magellanicus við Kanada. Einungis virðist um eina Trichodina tegund að ræða og hefur henni ekki verið lýst áður.