Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Veggspjald 58


Sýkingu af völdum gródýrs (Apicomplexa) í hörpuskelinni Placopecten magellanicus við Kanada lýst í fyrsta sinn



Matthías Eydal (meydal@hi.is)

Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum

Gródýr (Apicomplexa) eru einfruma sníkjudýr sem fjölga sér inni í frumum hýsils. Nýlega var lýst áður óþekktu gródýri, sem að byggingu er ólíkt öðrum gródýrum sem fundist hafa í samlokum (Bivalvia), í þrem tegundum af hörpuskeljaætt (Pectinidae) í Evrópu (1). Sníkjudýrið fannst í mörgum líffærum en mestar sýkingar voru í samdráttarvöðva. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort sams konar gródýr finnst vestanhafs, í amerísku hörpuskelinni Placopecten magellanicus.

Villtum P. magellanicus skeljum (n = 25; meðalhæð 11,8 cm) var safnað í Bay of Fundy við austurströnd Kanada 2012. Leitað var að gródýrum í samdráttarvöðva og í kynkirtlum í fersku stroki og með hefðbundinni vefjarannsókn.

Gródýr, sérstök „zoite“ lífsstig, fundust í 44% skeljanna alls, í 36% samdráttarvöðva og í 16% kynkirtla. Engin önnur lífsstig fundust. Lögun og stærð (17-19,5 x 6,5-8 µm) gródýranna var áþekk þeim sem fundist hafa í evrópskum hörpuskeljategundum (1), íbjúgar frumur með áberandi stórum kjarna. Sýking var mjög lítil, oftast fundust einungis 1-10 gródýr í vefjastroki á smásjárgleri, í einni skel fannst klasi af gródýrum í vöðva. Ekki sáust merki um sjúklegar vefjabreytingar.

Þetta er í fyrsta sinn sem gródýrasýking finnst í amerísku hörpuskelinni P. magellanicus. Einkenni gródýranna benda til að um sömu eða náskyld gródýr sé að ræða og fundist hafa í þrem tegundum evrópskra hörpuskelja.

1)  Kristmundsson A, Helgason S, Bambir SH, Eydal M, Freeman MA 2011. Journal of Invertebrate Pathology, 108, 147–155.