Smittilraun með Gyrodactylus marinus sníkjuflatorma á þorski (Gadus morhua)
Sníkjudýr af ættkvíslinni Gyrodactylus eru smáir flatormar (Monogenea), um hálfur mm á lengd, sem leggjast á tálkn, roð eða ugga fiska og geta valdið sjúkdómi. Fjórar tegundir eru þekktar á þorski við Ísland. Það eru einkum sýkingar á tálknum sem hafa áhrif á heilbrigði þorsks, en þar finnst einkum tegundin Gyrodactylus marinus.
Fjórir smitfríir seiðahópar (1-6 g seiði) voru útsettir fyrir mismiklum fjölda lifandi Gyrodactylus orma af tálknum villtra þorska í 30-50 mínútur. Seiðin voru síðan alin í kerum við 9˚C og fylgst með framvindu sýkinga í 3-5 vikur.
Viku frá smitun fundust Gyrodactylus ormar á 0, 7, 20 og 80% seiða (smittíðni eftir hópum) og 1-5 ormar voru á hverju sýktu seiði. Smittíðni og fjöldi orma hélst áþekk í hverjum hópi út tilraunatímann, en lækkaði mikið í sýktasta hópnum í lokin. Ormarnir fundust eingöngu á tálknum og voru af tegundinni G. marinus að undaskildum einum G. callariatis ormi. Engin merki sáust sem bentu til að ormarnir hefðu áhrif á heilbrigði tálkna, enda sýkingar mjög litlar. Engir ormar fundust á ósmituðum viðmiðunarseiðum.
Það kom á óvart hve ormarnir fjölguðu sér lítið, en þekkt er að Gyrodactylus ormar, sem hafa einfaldan lífsferil án millihýsla, geta fjölgað sér mikið á nokkrum dögum/vikum við kjöraðstæður. Ekki hefur áður verið greint frá tilraunum til smitunar þorsks með Gyrodactylus ormum.