Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Erindi 102



Fjaðurstafamítill rjúpunnar – líffræði og aðlaganir



Karl Skírnisson (1) og Ólafur K. Nielsen (2)

1) Tilraunastöð Háskóla Ísland í meinafræði að Keldum, Reykjavík
2) Náttúrufræðistofnun Íslands, Urriðaholti, Garðabæ

Kynnir: Karl Skírnisson
Tengiliður: Ólafur K. Nielsen (okn@ni.is)

Eitt sníkjudýra rjúpunnar er mítillinn Mironovia lagopus (Acari: Syringophilidae) (Bochkov & Skirnisson 2011). Hann lifir í holrými fjaðurstafa á væng og liggur leið hans inn og út af þessu afmarkaða búsvæði í gegn um lítið op (superior umbilicus) sem staðsett er við neðra borð fananna. Rjúpuungar smitast frá móður við snertingu. Hafi ungi eitt sinn smitast er talið að smitið viðhaldist ævina á enda. Smittíðni að haustlagi hefur verið rannsökuð undanfarin sjö ár í fuglum úr Þingeyjarsýslum í tengslum við rannsóknir á heilbrigði rjúpunnar. Í ljós hafa komið reglubundnar breytingar á smittíðni, hún var há 2007 og lækkaði síðan fjórfalt í lágmark 2010 og reis síðan aftur. Aðlaganir Mironovia lagopus eru sérstakar en mítillinn nærist með því að stinga mjóum sograna í gegnum vegg fjaðurstafsins og sjúga vessa (blóð, sogæðavökva) úr frumum fjaðurslíðursins. Búsvæði mítlanna er að mestu takmarkað við fjaðurstafi armflugfjaðra og fjaðurstafi stærstu þekjufjaðra vængjarins. Í þessum fjöðrum er  þykkt fjaðurveggjarins oftast á bilinu 100 til 120 µm en útrekinn sogranni mítilsins getur verið að minnsta kosti 152 µm langur. Mítlarnir sjálfir verða allt að 750 µm langir þannig að fjaðurstafir þurfa að geta boðið upp á ákveðið lágmarksrými til að uppfylla þarfir tegundarinnar um tímgun og vöxt lirfanna og gyðlanna yfir á hið smithæfa fullorðinsstig. Búsvæði mítilsins er því takmarkað við nokkra tugi fjaðurstafa á hverjum fugli.