Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Veggspjald 55


Um tríkínur (Trichinella spp.) og smit af völdum þessara sníkjudýra á Íslandi



Karl Skírnisson (karlsk@hi.is)

Tilraunastöð Háskóla Ísland í meinafræði að Keldum

Tríkínur eru sníkjuþráðormar af ættkvíslinni Trichinella sem lifa í meltingarvegi og þverrákóttum vöðvum dýra víðast hvar í heiminum. Sex af átta þekktum tegundum geta lifað í mönnum og valdið í þeim alvarlegum sjúkdómi, sem oft leiðir til dauða. Á heimskautasvæðum hringinn í kring um norðurhvel lifir tegundin T. nativa, einkum í hvítabjörnum, rostungi, úlfum og ref. Sunnar, á tempruðum landsvæðum, lifir T. spiralis, einkum í svínum, hrossum, hundum, björnum og refum. Báðar tegundirnar lifa einnig í dýrum sem stunda hræát, til dæmis nagdýrum. Smit berst á milli dýra með hráu holdi. Fullorðnu ormarnir lifa niðri í slímhimnu þarmsins og verpa þar lirfum sem berast með blóðrás út um líkamann. Ofangreindu tegundirnar mynda þolhjúpa utan um lirfurnar og mest er af þeim í þverrákóttum vöðvum. Lirfustig T. nativa þolir frost og lifir hún hér í nágrannalöndunum (Grænlandi, Svalbarða, Noregi). Rannsakað var hvort fimm hvítabirnirnir, sem taldir voru hafa lifað við Austur-Grænland áður en þeir komu til Íslands, væru smitaðir af tríkínum. Tvö dýrin voru smituð, aldurhniginn björn, á 23. aldursári, og ríflega fjögurra vetra birna. T. nativa átti í hlut í báðum tilvikum. Einnig hefur verið leitað á Keldum að tríkínum í svínum, villtum minkum og hrossum, án þess að finna sníkjudýrið. Ísland er eina landið í Evrópu sem laust er við tríkínur. Líklegar ástæður þess eru ræddar en jafnframt minnt á að við ákveðin skilyrði gætu tríkínur náð hér fótfestu, bæði í villtum dýrum og í húsdýrum.