Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Erindi 94



Ónæmismeðferð gegn sumarexemi í hestum. Meðferð um munnslímhúð með byggi sem tjáir ofnæmisvaka



Sigríður Jónsdóttir (1), Vilhjálmur Svansson (1), Sigurbjörg Þorsteinsdóttir (1), Jón Már Björnsson (2), Auður Magnúsdóttir (2), Ómar Gústafsson (2) og Einar Mäntylä (2)

1) Tilraunstöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum
2) ORF Líftækni

Kynnir/Tengiliður: Sigurbjörg Þorsteinsdóttir (sibbath@hi.is)

Sumarexem er húðofnæmi í hestum orsakað af biti smámýs (Culicoides spp.) sem lifir ekki á Íslandi. Tíðni sjúkdómsins er há í útfluttum íslenskum hestum. Ofnæmisvakarnir sem valda exeminu hafa verið einangraðir, tjáðir í E. coli og sumir í skordýrafrumum. Ójafnvægi milli Th1, Th2 og T-stýrifruma virðist vera undirliggjandi orsök exemsins og því ætti að vera hægt að þróa ónæmismeðferð með örvun á Th1 og T-stýrifrumum. Markmið verkefnisins er athuga hvort hægt sé að ræsa T-stýrifrumur og mynda ónæmisþol í hestum með því að meðhöndla þá um slímhúð munns (oral tolerance) með byggi sem tjáir ofnæmisvaka. Ofnæmisvakinn Cul n 2 (hýalúronidasi) var tjáður í byggi hjá ORF Líftækni og eru u.þ.b. 100 µg af Cul n 2 í 1gr af byggi.

Tveimur hestum voru gefnir sex 50 gr skammtar af Cul n 2 möluðu byggi uppleystu í saltvatni með þriggja til fjögurra vikna millibili. Tveir samanburðarhestar fengu sömu meðhöndlun með blöndu úr óbreyttu byggi. Notuð voru sérhönnuð hol beislismél sem voru ítrekað fyllt með byggblöndu sem hestarnir höfðu upp í sér í 5-6 klst meðhöndlunardagana. Tekin voru reglulega blóð og munnvatnssýni og prófuð fyrir mótefnasvari í ónæmisblotti á endurröðuðu Cul n 2 hreinsuðu úr skordýrafrumum. Eftir síðustu bygggjöfina voru Cul n 2 bygg meðhöndluðu hestarnir komnir með sérvirkt Cul n 2 IgG svar í blóði. Eðli ónæmissvarsins eða hvort um þolsvar sé að ræða verður síðan prófað. Mældir verða IgG undirflokkar, IgE og boðefnasnið.

Styrktaraðilar: Rannís, Framleiðnisjóður landbúnaðarins, Hrossaræktarsamtök Suðurlands