Próteinbólusetning gegn sumarexemi í hestum
Sumarexem er ofnæmi í hestum orsakað af próteinum úr bitkirtlum smámýs (Culicoides spp.), en smámý lifir ekki á Íslandi. Íslenskir hestar sem fluttir eru út og eru útsettir fyrir smámýi fá sumarexem í allt að 50% tilfella. Ofnæmisvakarnir sem valda exeminu hafa verið einangraðir og tjáðir í E. coli. Markmiðið er að þróa ónæmismeðferð gegn sumarexemi.
Tólf hestar á Keldum voru bólusettir þrisvar sinnum með fjórum endurröðuðum ofnæmisvökum úr C. nucbeculosus framleiddum í E. coli og IC31 glæði. Sex hestar voru sprautaðir í húð, með eða án glæðis og 6 hestar í kjálkabarðseitla, með eða án glæðis. Sértækt IgG og IgE var mælt í sermi. Mun sterkara IgG svar fékkst með glæði en án og ívið sterkara þegar sprautað var í eitla en í húð. Engin sértæk IgE framleiðsla varð í kjölfar bólusetningarinnar.
Tólf hestar á Keldum voru bólusettir þrisvar sinnum í kjálkabarðseitla með fjórum endurröðuðum ofnæmisvökum úr C. nucbeculosus framleiddum í E. coli og alum glæði annarsvegar og blöndu af alum og monophosphoryl lipid A (MPL) glæðum hinsvegar. Sértækt IgG og IgE var mælt í sermi. Engin framleiðsla varð á IgE gegn ofnæmisvökunum. Sértækt IgG svar fékkst hjá báðum hópum, öflugast í undirflokkunum IgG4/7 og IgG1.
Bólusetning í eitla með endurröðuðum ofnæmisvökum, framleiddum í E. coli, sem eru blandaðir í ónæmisglæði lofar góðu fyrir frekari þróun á ónæmismeðferð gegn sumarexemi.
Styrktaraðilar: Rannís, Framleiðnisjóður landbúnaðarins, Rannsóknasjóður Háskóla Íslands.