Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Kynningarveggspjald 1


Greining á tímaritinu „Icelandic Agricultural Sciences“ skv. alþjóðlega viðurkenndum vefsetrum.



Sigurður Ingvarsson (1), Bjarni Diðrik Sigurðsson (2) og Þorsteinn Guðmundsson (2)

1) Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum
2) Landbúnaðarháskóli Íslands

Kynnir: Sigurður Ingvarsson
Tengiliður: Þorsteinn Guðmundsson (thorsteinng@lbhi.is)

Icelandic Agricultural Sciences (IAS: www.ias.is) er alþjóðlegt vísindarit sem birtir greinar um hagnýt og fræðileg efni í náttúruvísindum, aðallega tengt norðurslóðum. Tímaritið er í prentaðri útgáfu og í opnum rafrænum aðgangi (e. Open Access). Greinar í IAS koma fram í ýmsum alþjóðlegum vefsetrum.

Til að kanna hversu sýnilegt IAS er var framkvæmd leit í vefsetrum Thomson Reuters og Scopus-Elsevier þann 1. nóvember 2013. Alls voru 33 IAS greinar (2009-2012) í Thomson gagnagrunni og 34 (2010-2013)  í Scopus gagnagrunni, sem eru allar greinar sem komu út í IAS á þessu árabili. Vitnað hefur verið í þessi 33 og 34 ritverk 69 og 53 sinni, að meðaltali 2,1 og 1,6 tilvitnanir í hverja grein. Matsstuðull (e. Impact Factor) er 1,750 og Hirsch-index mælist 4. Sú grein sem oftast var vitnað í fjallar um öskufall og áfok. Thomson vefsetrið flokkar greinarnar sem vitna í IAS í 29 svið og Scopus vefsetrið í 17 svið. Höfundar að greinunum sem vitna í IAS eru frá 95 stofnunum og háskólum víðs vegar í heiminum, í 5 heimsálfum og 26 löndum.

Vefsetursgreiningin á IAS endurspeglar árangursríkt gæðastarf tímaritsins, fjölbreytt fræðasvið hagnýtra náttúrufræða og gefandi alþjóðlegt samstarf. Vísindamenn í öðrum rannsóknarhópum víðs vegar um heiminn nota greinar í IAS til að skipuleggja eigin rannsóknir eða fjalla um þær til samanburðar og við túlkanir á niðurstöðum. Árangur útgáfustarfsins er góður og IAS er nú ofarlega á blaði meðal smárra til meðalstórra vísindarita sem það er sett í flokk með.

.