Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Veggspjald 54


Augnsýkingar af völdum Listeria monocytogenes í íslenskum kúm



Guðbjörg Jónsdóttir (1), Signý Bjarnadóttir (1), Vala Friðriksdóttir (1), Hjalti Viðarsson (2) og Eggert Gunnarsson (1)

1) Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum
2) Dýralæknir, Búðardal

Kynnir: Signý Bjarnadóttir
Tengiliður: Guðbjörg Jónsdóttir (gj@hi.is)

Inngangur: Bakterían Listeria monocytogenes finnst víða í náttúrunni, í fjölda dýrategunda og einnig í fóðri, matvælum og jarðvegi. Bakterían getur valdið sjúkdómnum listeriosis, bæði hjá mönnum og dýrum. Sýkingar í dýrum tengjast yfirleitt fóðrun með votheyi eða illa verkuðu rúllubaggaheyi. L. monocytogenes getur einnig valdið augnsýkingum í nokkrum  dýrategundum og hefur verið einangruð úr sýktum augum hrossa, sauðfjár og nautgripa víða erlendis. Hér verður lýst fyrsta staðfesta tilfellinu af listeríuaugnsýkingu í nautgripum hér á landi.

Efni, aðferðir og niðurstöður: Um 30 nautgripir á kúabúi á Vesturlandi fengu augnsýkingu en á bænum voru um 60 gripir. Einkennin voru mismikil allt frá því að vera væg erting í auga/augum upp í hornhimnubólgu og jafnvel blindu. Keldum bárust stroksýni frá nokkrum gripum og frá þeim öllum ræktaðist hreinn vöxtur af L.monocytogenes. Bakterían var einangruð og tegundagreind. Hún reyndist vel næm gegn þeim sýklalyfjum er prófuð voru.

Umræður: L. monocytogenes var hér einangruð úr sýktum augum nautgripa í fyrsta skipti á Íslandi. Oftast eru dýr meðhöndluð strax og sýkingar verður vart en ekki tekin sýni til að kanna orsök sýkingarinnar. Af faraldsfræðilegum ástæðum þyrfti að gera það oftar þar sem Listeria er sem kunnugt er súnu baktería og getur verið alvarlegur sjúkdómsvaldur í dýrum og mönnum. Því er mikilvægt að geta gripið til viðeigandi ráðstafana og meðhöndlunar þar sem það á við.