Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Veggspjald 9


Mynstur í framleiðni grágæsa á landsmælikvarða á Íslandi



Helgi Guðjónsson (1,3), Jón Einar Jónsson (1), Halldór Walter Stefánsson (2) og Tómas Grétar Gunnarsson (3)

1) Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi
2) Náttúrustofa Austurlands
3) Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Suðurlandi

Kynnir/Tengiliður: Helgi Guðjónsson (heg22@hi.is)

Árlega eru skotnar um 40 þúsund grágæsir hérlendis úr stofni sem telur aðeins um 110 þúsund fugla fyrri hluta vetrar. Stofn af þeirri stærð ber ekki slíka veiði til lengdar nema varpárangur sé góður og búsvæði til að standa undir varpinu séu varðveitt.  Markmið verkefnisins var að bera saman breytileika í varpárangri (m.a. varptíma, fjölda eggja og fjölda uppkominna unga) milli mismunandi búsvæða og landshluta til að greina við hvernig aðstæður grágæsir framleiða mest. Gagnaöflun fór fram maí-ágúst 2012-2013. Rannsókninni var skipt í tvo hluta, hreiðraleit og ungatalningar. Rannsóknarsvæðin voru Vesturland, Suðvesturland, Norðurland og Austurland. Mældir voru þættir sem tengjast framleiðni með því að skoða hreiður (m.a varptími, urpt, eggjastærð) og telja unga (m.a fjöldi unga á par og fjöldi fullorðinna án unga o.fl.). Heildar fjöldi hreiðra sem var skoðaður á rannsóknartímabilinu var 363, þar af voru 134 á Suðurlandi, 62 í  Breiðafirði, 62 á Norðurlandi og 97 á Austurlandi. Niðurstöður sýna marktækan mun á varptíma milli rannsóknarsvæða en ekki reyndist vera marktækur munur milli ára. Varp virðist hefjast fyrst á Suðurlandi og í Breiðafirði, því næst á Austurlandi og seinast á Norðurlandi. Ekki reyndist vera marktækur munur á urpt milli landshluta. Ungatalningar benda þó til þess að það sé marktækur munur á meðal ungafjölda milli landshluta. Einnig reyndist vera marktækur munur milli ára en þó aðeins á Suðurlandi og Vesturlandi og voru marktækt færri ungars sumarið 2013.