Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Erindi 92



Ónæmismeðferð gegn sumarexemi í hestum. Þróun aðferða til að tjá og hreinsa endurraðaða ofnæmisvaka í skordýrafrumukerfi



Sara Björk Stefánsdóttir, Sigríður Jónsdóttir, Caroline Bergendahl Arnesen, Vilhjálmur Svansson og Sigurbjörg Þorsteinsdóttir

Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum

Kynnir/Tengiliður: Sara Björk Stefánsdóttir (sbs27@hi.is)

Sumarexem er húðofnæmi í hestum sem orsakast af biti smámýs (Culicoides spp.) sem lifir ekki á Íslandi. Tíðni sjúkdómsins er há í útfluttum hrossum. Ofnæmisvakarnir hafa verið tjáðir í bakteríum og hreinsaðir. Ferill sjúkdómsins hefur verið skilgreindur og tilraunir til ónæmismeðferðar eru hafnar. Ofnæmisvakarnir sem framleiddir eru í bakteríum henta illa fyrir sum ónæmisprófin sem eru nauðsynleg til að mæla árangur meðferðar. Æskilegt er að framleiða þá í heilkjörnungum og eðlilegast að tjá þá í skordýrafrumum. Markmið rannsóknarinnar er að tjá ofnæmisvakana Culn1, Culn2 og Culn4 með mismunandi nálgunum til að auðvelda hreinsun. Borin verður saman tjáning, annars vegar með eigin seytiröð og hins vegar með utanaðkomandi seytiröð (honey bee melittin, HBM)

Notaðar eru hefðbundnar aðferðir sameindalíffræðinnar. Framleitt er bacmíð í Bac-to-Bac Baculoveirutjáningarkerfi með tveimur mismunandi pFastBac plasmíðum. Endurraðaðar veirur eru framleiddar í Sf-9 skordýrafrumum og 6xhis-merkt prótein í High-5 skordýrafrumum.

Bac Culn1 veirur hafa verið framleiddar og klónaðar bæði með og án HBM, verið er að framleiða próteinin. Bac Culn2 án HBM er tilbúið og Bac HBM Culn2 veirur eru í klónun. Culn4 bacmíð eru tilbúin til innleiðingar í Sf-9 frumur, bæði með og án HBM.

Í framhaldinu er áætlað að prófa ónæmissvörun og ofnæmissvörun gegn hreinsuðum Bac Culn1, Culn2 og Culn4 og bera hana saman við svörun gegn samsvarandi próteinum hreinsuðum úr E. coli framleiðslukerfi.

Styrktaraðilar: Rannís, Rannsóknasjóður Háskóla Íslands.