Viðkoma, fæða og fæðuþrep lunda
Teknar eru saman niðurstöður mælinga á ungaframleiðslu og ungafæðu lunda (Fratercula arctica) við Ísland 2010-13. Kynntar eru frumniðurstöður rannsókna á styrk samsætna niturs (15N) og kolefnis (13C) í varpfuglum norðan- og sunnanlands á varp- og vetrarstöðvum, sem og pysjum frá Eyjum og Bjarnarey við Vopnafjörð. Borin eru saman fæðuþrep, fjarlægð fæðuöflunarmiða og fæðusamsetning (í vinnslu). Tólf lundavörp voru heimsótt tvisvar á sumri 2010-2013 og >500 merktar varpholur kannaðar með innrauðum holumyndavélum. Með þessu var mælt: (1) ábúð (egg/holu) og (2) varpárangur (ungi/egg). Viðkoma er margfeldi 1 og 2 (ungi/holu). Pysjufæða var ljósmynduð í >500 lundanefjum á landsvísu 2011-13 og fæða greind (2013 í vinnslu). Viðkomu- og fæðumynstur hefur fylgt sjógerðum, hlýsjó sunnan- og vestanlands en kaldsjó norðan- og austanlands. Viðkoma hefur verið góð á „norðursvæði“ en sandsíli (Ammodytes marinus) var aðalfæða þar 2011-12, en loðna (Mallotus villotus) var ríkjandi fæða þar í lok síðasta sjávarkuldaskeiðs 1994-95. Áætlað er að 70% íslenska varpstofnsins verpi á „suðursvæði“ en þar hefur ríkt hungursneið í kjölfar hruns sandsílastofnsins árið 2005 og síðan hefur viðkoma verið lítil eða engin. Niðurstöður 2013 fylgja þessu mynstri nema hvað loðna virðist hafa staðið undir þokkalegri ungaframleiðslu SA-lands. Minnkun lundastofns Vestmannaeyja 2004-13 er metin um 7%/ári, og að heildarstofn þar hafi minnkað um 55% (2,5 milljón fugla) síðan 2004 vegna viðvarandi viðkomubrests.