"Bíddu, ég lærði þetta í fyrra"- forhugmyndir og þekking barna í líffræði
Þegar kemur að raungreinanámi byggist það oft á tíðum á flóknum útskýringum á hugtökum sem eiga meira sameiginlegt með vísindaheiminum heldur en þeirri tilveru sem nemendur eiga að venjast. Þar sem nemendur byggja nám sitt helst á fyrri reynslu og hversdagslegum hugmyndum verður raunin oft sú að það sem kennarinn kennir, er eitthvað allt annað en það sem nemandinn svo lærir þar sem að nemandinn túlkar kennsluna á sínum forsendum, það er, því sem hann hefur reynt sjálfur. Dæmi um þetta má nefna skilning nemenda á kröftum og hreyfingu en mörgum reynist erfitt að samþykkja að hlutir geti hreyfst án tilkomu krafta. Kenningar Newton um krafta og hreyfingu eru illskiljanlegar nemendum og þeir vilja sem allra lengst halda í sínar eigin útskýringar og sneiða því frekar framhjá fræðilegum útskýringum (Hafþór Guðjónsson 1991). Nemendur hafa oft heyrt um þau fyrirbæri sem fjallað er um innan kennslustofunnar, til að mynda í fjölmiðlum eða einfaldlega úr daglegu tali á heimilinu. Oft á tíðum er sú orðræða gjörólík orðræðu vísindanna, þar sem auglýsendur fjalla til dæmis um krem sem smjúga inn í DNA manna og lagar stökkbreytingar sem valda hrukkum. Það getur því verið erfitt fyrir kennara sem vanur er að vinna innan vísindasamfélagsins þar sem allir þáttakendur þekkja tungumálið sem notað er, að stíga niður og útskýra hvað átt er við með stökkbreytingu, DNA- eftirmyndun eða atómkenningunni, fyrir unglingum, sem hafa allt annað tungutak og allt annan reynsluheim en þeir sem eru að kenna. Hlutverkaskipan innan kennslustofunnar er því oft mjög stíf, nemandinn skuli nema viskuna frá kennaranum og þessi stífa hlutverkaskipan veldur oft á tíðum vandræðum þar sem þessir tveir ólíku hópar nota ekki sömu orðræðu (Wells 2007, bls 3).
Samkvæmt þeirri aðalnámskrá grunnskóla (Aðalnámskrá grunnskóla 2007) sem viðmælendur mínir höfðu lært eftir er gert ráð fyrir að við lok 7. bekkjar þekki nemendur skyldleikaflokkun lífvera sem og ferli og tilgang ljóstillífunar.
Á fyrstu áratugum 20. aldar var nokkur áhersla lögð á uppgötvunarnám (e. discovery learning) og átti sú áhersla eftir að aukast þegar leið á öldina. Nemendur voru þannig látnir framkvæma tilraunir og læra þannig um hin ýmsu náttúrufræðilegu fyrirbæri. Uppgötvunarnámið byggði á því að nemendurnir settu sig í spor vísindamannsins og gerði ráð fyrir að nemandinn framkvæmdi tilraunirnar nákvæmlega eftir hinni vísindalegu aðferð. Þessi kennsluaðferð var í miklum metum í Evrópu og Bandaríkjunum fram