Hvert fara flórgoðarnir?
Flórgoði Podiceps auritus er sérhæfður vatnafugl af goðaætt (Podicipedidae) og er sá eini þeirrar ættar sem verpir hér á landi. Miklar breytingar hafa orðið á fjölda og útbreiðslu flórgoða hér á landi undanfarna áratugi og var um tíma óttast um afdrif stofnsins, þegar flórgoðum hafði fækkað verulega og útbreiðsla dregist saman í byrjun tíunda áratugs síðustu aldar. Eftir það tók þó stofninn við sér á ný, sem varð til þess að sjónum hefur í auknum mæli verið beint að vetrarstöðvum í leit að skýringum á stofnþróuninni.
Náttúrustofa Norðausturlands hóf rannsóknir á því hvar flórgoðar halda sig utan varptíma árið 2009. Notast hefur verið við dægurrita (e. geolocator) en þeir safna upplýsingum um birtutíma og út frá þeim upplýsingum er hægt að reikna staðsetningu, náist merkið aftur. Alls hafa nú 36 flórgoðar verið merktir með dægurritum og hafa 18 þeirra endurheimst nú þegar.
Frumniðurstöður benda til þess að strandsvæði Skotlands séu mikilvæg búsvæði íslenskra flórgoða en farhættir og vetrarstöðvar eru þó mjög mismunandi og einstaklingsbundnir. Þá hafa komið fram vísbendingar um að flórgoðastofnar við N-Atlantshaf deili mögulega vetrarstöðvum að einhverju leyti, sem gæti mögulega sett stofnþróun þeirra í nýtt samhengi.