Áhrif Aurora-A kjarnatjáningar á brjóstakrabbameinssérhæfða lifun
Aurora-A kínasi gegnir mikilvægu hlutverki í stjórnun frumuhringsins. Yfirtjáning á kínasanum tengist mögnun geislaskauta í mítósu sem veldur truflunum í aðskilnaði systurlitninga sem getur leitt til mislitnunar og krabbameinsmyndunar. Yfirtjáning á Aurora-A er m.a. algeng í brjóstakrabbameinum. Í þessari rannsókn var Aurora-A kjarnatjáning metin með mótefnalitun á vefjaörflögum í alls 391 brjóstaæxli, þar af voru 107 með BRCA2 999del5 kímlínubreytingu og 284 af óþekktum uppruna. Aurora-A kjarnalitun fannst marktækt oftar í æxlum frá BRCA2 arfberum. Verri brjóstakrabbameinssérhæfð 10 ára lifun var marktækt tengd Aurora-A yfirtjáningu hjá báðum brjóstakrabbameinshópum. Áhrif Aurora-A tjáningar á brjóstakrabbameinssérhæfða lifun var skoðuð í tengslum við litnun, estrogen viðtaka (ER), Ki-67 tjáningu og luminal undirhópa. Meðal arfbera var einnig skoðuð lifun í tengslum við Aurora-A tjáningu og tap á BRCA2 villigerðarsamsætu. Á meðal einstaklinga með brjóstakrabbamein af óþekktum uppruna hafði Aurora-A tjáning marktæk neikvæð áhrif á slæma brjóstakrabbameinsérhæfða lifun hjá einstaklingum með luminal B krabbamein, fjöllitnun og ER neikvæða tjáningu. Á meðal BRCA2 999del5 arfbera voru marktæk neikvæð áhrif Aurora-A kjarnalitunar á slæma brjóstakrabbameinsháða lifun hjá þeim sem höfðu tvílitna æxli og ER jákvæða tjáningu. Þau tilvik á meðal BRCA2 arfberanna þar sem bæði var um að ræða tap á BRCA2 villigerðarsamsætunni og yfirtjáning á Aurora-A tengdust marktækt mjög slæmum horfum.