Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Erindi 29



Notkun lýsata úr útrunnum blóðflögueiningum til fjölgunar og sérhæfingar á mennskum miðlags-stofnfrumum og miðlagslíkum fósturstofnfrumum



Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch (1,2), Ramona Lieder (2), Hildur Sigurgrímsdóttir (1), Kristbjörg Gunnarsdóttir (1,2), Marta Serwatko (3) og Ólafur E. Sigurjónsson (1,3)

1) Blóðbankinn, Landspítali Háskólasjúkrahús
2) Læknadeild, Háskóli Íslands
3) Tækni og Verkfræðideild Háskólans í Reykjavík

Kynnir: Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch
Tengiliður: Ólafur E. Sigurjónsson (oes@ru.is)

Fjölda blóðflögueininga er fargað árlega sökum stutts geymslutíma. Ef örverur eru til staðar skapar fjölgun þeirra áhættu fyrir blóðþega  séu einingarnar geymdar lengur en 5 daga. Svo stuttur tími veldur því að fjöldi eininga rennur út og þarf að farga. Við deild rannsókna og nýsköpunar í Blóðbankanum hefur á undandförnum árum verið þróaðar aðferðir til að nýta útrunnar blóðflögueiningar til ræktunar á miðlags-stofnfrumum með góðum árangri. Miðlagsstofnfrumur búa yfir áhugaverðum eiginleikum sem nýta má í læknisfræði og því þarf að vera hægt að rækta þær á öruggan hátt. Nýting útrunnina blóðflaga við frumuræktun getur komið í stað kálfasermis og stuðlað að auknu öryggi auk þess sem dýrmæt afurð er nýtt en ekki  fargað. Nýlega var kerfi til örveruóvirkjunar með amotosalen og UV ljósi innleitt í  framleiðsluferli  Blóðbankans. Við sýnum framá að hægt er að nota útrunnar örveruóvirkjaðar blóðflögur sem og hefðbundnar blóðflögueiningar við rækt á miðlags-stofnfrumum og miðlagslíkum fósturstofnfrumur.Miðlags-stofnfrumur og miðlagslíkar fósturstofnfrumur voru ræktaðar í frumuræktunaræti sem innihélt roflausn úr útrunnum  blóðflögum. Engin neikvæð áhrif á sérhæfingu, svipgerð, fjölgun né ónæmismótun komu fram.Hægt er að nýta útrunnar blóðflögueiningar Blóðbankans til að útbúa roflausn sem styður við vöxt miðlags-stofnfruma í rækt. Slíkt er fjárhagslega hagkvæmt, dregur úr notkun dýraafurða og eykur öryggi við ræktun miðlags-stofnfruma fyrir klínísk not.