Fuglalíf við Kolgrafafjörð í ljósi síldargangna og –dauða
Síld hefur gengið inn á sunnanverðan Breiðafjörð frá því um 2006 og henni fylgt mikil aukning í fjölda fugla og sjávarspendýra. Höfundar hófu árlegar vetrarfuglatalningar við Kolgrafafjörð um áramótin 2000-2001, en fuglamergðin náði nýjum hæðum veturinn 2012-2013, þegar margfalt fleiri fuglar sáust á svæðinu en nokkru sinni frá því að samfelldar talningar hófust. Fjölgunin átti sér talsverðan aðdraganda og virðist beintengd síldargengdinni. Fylgst var sérstaklega með fuglalífi í Kolgrafafirði í kjölfar þess að ríflega 50 þúsund tonn af síld drápust í firðinum í tveim aðskildum atburðum, í desember og byrjun febrúar. Gríðarlegur fjöldi fugla hélt sig á svæðinu bæði fyrir og eftir síldardauðann og sóttu fuglarnir frekar í lifandi síld en dauða. Máfar í tugþúsunda tali voru mest áberandi en einnig vakti eftirtekt að tugir arna héldu til á svæðinu. Eftir síðari síldardauðann var lögð áhersla á að fylgjast með því hvort fuglar lentu í síldargrút, með þeim afleiðingum að þeir yrðu ófleygir og ættu á hættu að drepast úr kulda eða hungri. Nokkur fjöldi grútarblautra fugla sást, þar á meðal ernir, og fremur fáir dauðir fuglar fundust. Súlur sáust oft yfir veturinn en urðu sérstaklega áberandi á tímabilinu apríl-júní, þegar þær stungu sér án afláts í hundraða og stundum þúsunda tali á eftir lifandi síld í Kolgrafafirði. Tugir súlna drápust vegna áverka sem flestir tengjast líklega veiðum á litlu dýpi. Í erindinu verður atburðarásin síðustu vetur rakin í stuttu máli og myndum.