Hlutverk Limd1 í stjórnunarferli Hif1 umritunarþáttar
Hif1 (hypoxia-inducible factor) er lykilumritunarþáttur í frumum sem bregst við breytingum á styrk súrefnis. Við lækkaðan súrefnisstyrk (hypoxia) eykst magn Hif1. Þannig stýrir Hif1 umritun á genum sem eru mikilvæg fyrir ákveðin efnaskipti og æðamyndun. Stjórnun á magni Hif1 er mikilvæg og niðurbrotsferli gegnir þar veigamiklu hlutverki. Phd (prolyl hydroxylase) er ensím sem tekur þátt í stjórnun á Hif1. Við eðlilegan súrefnisstyrk (normoxia) tengir Phd hýdroxý-hóp á tvær prólín amínósýrur Hif1. Þetta virkjar próteinflóka sem leiðir til niðurbrots á Hif1 í ubiquitin-proteasome-ferlinu. Margt er óljóst með gerð og starfsemi próteinflókans. Í erindinu verður m.a. gerð grein fyrir hlutverki Limd1 í stjórnunarferli Hif1, en nýlega var birt grein í Nature Cell Biology sem skýrir betur þetta ferli.
Ýmsum aðferðum sem greina tengingu milli próteina var beitt. Sameindalíffræðilegar aðferðir voru notaðar til að skrúfa fyrir og frá tjáningu Limd1 í frumum. Einnig var umritun greind með notkun sýnigens og notaðir voru hindrar á próteinniðurbrot í frumum.
Niðurstöðurnar benda til þess að Limd1 virki sem tengisameind milli Phd og Vhl. Við minnkaða tjáningu á Limd kemur fram aukning á magni og umritunarvirkni Hif1. Við aukna tjáningu á Limd kemur fram minnkuð umritunarvirkni Hif1 og sýnt var fram á að það ferli er háð Phd og ubiquitin-proteasome próteinniðurbroti.
Álykta má að Limd1 taki þátt í samsöfnun á próteinflóka og sé mikilvægur hlekkur í stjórnun á niðurbroti Hif1.