Innflutningur hunda 2006-2013
Vegna landfræðilegrar einangrunar Íslands eru húsdýr hérlendis að mestu laus við algeng smitefni sem landlæg eru erlendis. Af þessu leiðir að bústofn landsmanna er mjög viðkvæmur fyrir sjúkdómum sem ekki þekkjast hér og hætt við alvarlegum faröldrum berist smit til landsins. Gæludýr geta borið smit sem berst auðveldlega í önnur dýr en sem dæmi má nefna hestainflúensuveiruna H3N8. Einnig ræktaðist Streptococcus afbrigði sem olli faraldri í hestum hérlendis árið 2010 í sýnum úr hundum og köttum. Með banni við innflutningi gæludýra er því ekki síður verið að vernda annan bústofn í landinu. Undanþága frá banni þessu er í gildi með lagasetningu frá 1990 sem leyfir innflutning að undangenginni einangrun en hún fór fyrstu árin fram í Hrísey og árið 2006 bættist við aðstaða til einangrunar gæludýra í Höfnum. Alls hafa verið fluttir inn 1304 hundar síðan árið 2006 af 117 kynjum. Þeir hafa verið fluttir til Íslands frá 52 löndum víðsvegar um heim en flestir koma frá Norðurlöndum, Bandaríkjunum og Bretlandi. Stór hluti er fluttur inn vegna ræktunarstarfs en einnig koma margir með fólki sem flytur til landsins. Blóðsýni er tekið úr öllum innfluttum hundum og mótefnaskimun gerð fyrir H3N8. Að teknu tilliti til uppruna og sjúkdómasögu er í einnig prófað fyrir: Salmonellu, Brucellosis, hundaæði (bólusetningarstaða), og Camphylobacter. Leitað að ummerkjum um sníkjudýr í saursýnum (egg, lirfur, einfrumungar). 20 tegundir sníkjudýra hafa fundist og 2 sýni hafa mælst jákvæð gegn H3N8.