Samanburður á frjótíma birkis og grasa í Garðabæ og Reykjavík
Vöktun á frjókornum í lofti fer fram á yfir 600 stöðum víðsvegar í Evrópu. Mælingar á frjómagni í lofti eru gagnlegar meðal annars fyrir ofnæmissjúklinga og ofnæmislækna. Náttúrufræðistofnun Íslands sinnir frjómælingum hér á landi. Frá árinu 1988 hefur Burkard frjógildra verið staðsett í mælireit Veðurstofu Íslands við Bústaðaveg í Reykjavík. Við flutning Náttúrufræðistofnunar í Urriðaholt í Garðabæ vorið 2011 var sett upp ný frjógildra þar og henni ætlað að leysa frjógildruna við Veðurstofuna af þegar fram liðu stundir. Í Garðabæ er gildran staðsett á þaki í u.þ.b. 8 m hæð en gildran í Reykjavík er staðsett í 2 m hæð. Jafnframt er gildran í Garðabæ hærra yfir sjávarmáli og fjær sjó og er samsetning gróðurs í næsta nágrenni frábrugðin. Nú hafa þessar tvær frjógildrur verið notaðar samhliða í 3 ár og er komið að því að hætta frjómælingum í Reykjavík. Samanburður áranna 2011-2013 í Reykjavík og í Garðabæ sýnir að hlutfall birkis og grasa af heildarfrjómagni er sambærilegt milli mælistöðva. Árin 2011 og 2012 var heildarfjöldi grasfrjóa og birkifrjóa í Reykjavík mun hærri en í Garðabæ. Árið 2013 var heildarfjöldi grasfrjóa og birkifrjóa hins vegar hærri í Garðabæ. Mælingar leiddu í ljós að mun fleiri dagar í Reykjavík mælast með frjótölu 10 eða hærri heldur en í Garðabæ. Þrátt fyrir þann mismun og ólíkan heildarfjölda milli mælistöðva, hefur frjótími birkis og grasa ágæta samsvörun.