Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Erindi 97



Fundnar fleiri fjörusvertur (Hydropunctaria maura, Verrucariaceae)



Starri Heiðmarsson (1) og Sergio Pérez-Ortega (2)

1) Náttúrufræðistofnun Íslands, Akureyrarsetur
2) Dept. Biología Ambiental, Museo Nacional de Ciencias Naturales, Madrid

Kynnir/Tengiliður: Starri Heiðmarsson (starri@ni.is)

Fjörusverta (Hydropunctaria maura) er algeng fléttutegund í fjörum á klöppum og steinum umhverfis Ísland. Fjörusverta er af svertuætt (Verrucariaceae) sem er stór ætt með um 1000 þekktar tegundir sem flestar eru fléttumyndandi. Af ættinni eru um 70 tegundir þekktar á Íslandi.

Fjörusverta hefur verið talin tiltölulega auðgreind en sameindarannsóknir á genasvæðunum nucLSU, nucITS og mitSSU afhjúpuðu nýverið að í raun er fjörusverta (H. maura s. lat) a.m.k. fjórar aðskildar tegundir (1). Sameindafræðileg gögn benda til að þrjár þessara tegunda finnist á Íslandi, þ.e. Hydropunctaria maura, H. oceanica og H. aractina. Hydropunctaria amphibia er einnig þekkt frá Íslandi þó sýni af þeirri tegund hafi enn ekki verið staðfest með sameindafræðilegum gögnum. Fulltrúar ættkvíslarinnar finnast einnig við ferskvatn og hefur tilvist Hydropunctaria rheitrophila og H. scabra verið staðfest á Íslandi.

Fjörusverta er algeng í norðanverðu Atlantshafi og var talin útbreidd um suðurhöf sömuleiðis. Sameindafræðirannsóknirnar benda þó til að sýni sem talin voru af fjörusvertu og safnað var á suðurhveli tilheyri annarri ættkvísl, Mastodia, sem skyldust er Wahlenbergiella. Mastodia virðist bundin suðurhveli meðan Wahlenbergiella hefur einungis fundist á norðurhveli og verða þær niðurstöður reifaðar í fyrirlestrinum.

1. Orange, A. 2013. Lichenologist 44, 299-320.