Mæði-visnuveirur í sauðfé og tengslin við alnæmi – 20. janúar

Mæði-visnuveirur í sauðfé og tengslin við alnæmi

Halldór Þormar prófessor emeritus

Mæði-visnuveirur í íslensku sauðfé og tengslin við alnæmi

Vísindauppgötvanir á Íslandi tengdar veirusjúkdómum í sauðfé og mikilvægi þeirra fyrir skilning á alnæmisveirunni eru meginefni erindis sem Halldór Þormar, prófessor emeritus í frumulíffræði við Háskóla Íslands,  flytur í Hátíðasal Háskóla Íslands þriðjudaginn 20. janúar kl. 12.10. Um er að ræða þriðja erindið í nýrri fyrirlestraröð á vegum Háskóla Íslands sem nefnist Vísindi á mannamáli

Alnæmisveiran HIV fannst snemma á níunda áratug tuttugustu aldar í sjúklingum með forstigseinkenni alnæmis. Rannsóknir sýndu að HIV veldur sjúkdómnum og í ljós kom að veiran var svokölluð lentiveira, sú fyrsta sinnar tegundar sem fannst í mönnum.

Nærri 30 árum áður höfðu veirur af þessum flokki fundist hér á landi.  Sjúkdómarnir mæði og visna herjuðu á íslenskt sauðfé um miðbik tuttugustu aldar og undir forystu Björns Sigurðssonar, fyrsta forstöðumanns Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, var ráðist í rannsóknir á sjúkdómunum.  Björn réð Halldór Þormar til starfa árið 1957 til að prófa þá tilgátu að orsakir visnu og mæði væru veirur og tókst þeim og samstarfsmönnum að staðfesta að visna væri veirusjúkdómur. 

Í erindi sínu mun Halldór segja frá þessum tímamótarannsóknum sem sýndu einnig að visnu- og mæðiveirur eru afbrigði af sömu veirunni, mæði-visnuveiru. Síðar kom í ljós að sú veira er náskyld hinni alræmdu HIV-veiru sem veldur alnæmi í fólki. Því má segja að rannsóknirnar að Keldum hafi stuðlað að auknum skilningi manna á HIV-veirunni en báðar veirurnar valda hæggengum sjúkdómum, þó í ólíkum líffærum. Enn eru stundaðar rannsóknir á mæði-visnuveirunni að Keldum sem jafnframt nýtast til þess að varpa ljósi á líffræði HIV og alnæmis.

Um Halldór Þormar
Halldór Þormar lauk mag. scient. prófi í frumulíffræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1956. Hann stundaði framhaldsnám í veirufræði við Kaliforníuháskóla í Berkeley 1957-1958 og á árunum 1957-1960 vann hann við rannsóknir á  Tilraunastöð Háskólans í Meinafræði að Keldum,  og aftur 1962-1967. Hann hlaut doktorspróf í veirufræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1966. Halldór stundaði um árabil rannsóknir í New York en hefur einnig starfað við Cambridge-háskóla og unnið við háskóla og stofnanir í Belgíu, Venesúela, Kína og Danmörku. Árið 1986 var hann ráðinn prófessor í frumulíffræði við líffræðiskor Háskóla Íslands. Halldór er enn virkur í vísindastarfi og ritstýrði t.a.m. árið 2011 bók um notagildi fitusameinda til að berjast við sýkla.

Vísindi á mannamáli er ný fyrirlestraröð Háskóla Íslands sem efnt er til að frumkvæði Lífvísindaseturs og Líffræðistofu Háskóla Íslands.

Markmiðið er að varpa ljósi á það hvernig vísindamenn háskólans reyna að afhjúpa leyndardóma náttúrunnar og hvaða þýðingu vísindarannsóknir hafa fyrir daglegt líf fólks, t.d. baráttu við sjúkdóma eða náttúruöflin eða til að auka lífsgæði og takast á við nýjar áskoranir tengdar breytingum í umhverfinu.