Fréttabréf 1.tbl. febrúar 1999

20.árg. 1.tbl. febrúar 1999

Fuglar og fuglaljósmyndun

Jóhann Óli Hilmarsson heldur mynda- og fræðslukvöld á vegum Líffræðifélagsins fimmtudaginn 11. febrúar næstkomandi.  Þá mun Jóhann Óli kynna galdra fuglaljósmyndunar fyrir gestum.  Mun hann stikla á stóru varðandi tækni (myndavélar, linsur, filmur, þrífætur, felutjöld o.s.frv.), myndbyggingu og aðra leyndardóma iðju sinnar og verður umfjöllunin byggð á skyggnum úr safni hans.
Jóhann Óli Hilmarsson hefur stundað fuglaljósmyndun um skeið og hafa myndir hans birst víða í blöðum, bókum, á póstkortum, vefsíðum og á ýmsum öðrum vettvangi, jafnt hér á landi sem erlendis.  Hann myndar líka ýmislegt annað í hinni margþættu íslensku náttúru, þ.á.m. spendýr, stór og smá.

Ritfregn

Innan fárra vikna kemur út greinasafnið “Íslensk votlendi – verndun og nýting”.  Útgefandi er Háskólaútgáfan í samvinnu við Fuglaverndarfélag Íslands og Líffræðifélag Íslands.  Ritstjóri er Jón S.Ólafsson.  Ritið er gefið út í framhaldi af samnefndri ráðstefnu Líffræðifélagsins og Fuglaverndarfélags Íslands, sem haldin var dagana 22.-23. apríl 1994.
Í ritinu, sem er alls 283 bls., verða 25 greinar eftir 28 höfunda og verður því skipt í þrjá hluta:

1) yfirlit um íslenzk votlendi
2) rannsóknir á íslenzkum votlendum og
3) verndun og nýting votlendis

Stefnt er að því að áhugasamir félagar í Fuglaverndarfélaginu og Líffræðifélaginu geti keypt ritið á hagstæðu verði (nánar auglýst síðar), en reynt verður að halda almennu smásöluverði þess innan við 2000 krónur.

Ritstjóraspjall

Stjórn Líffræðifélags Íslands vill byrja árið á að óska félagsmönnum öllum gleðilegs og góðs nýs árs.  Í tilefni nýhafins árs er vert að minna á að franski læknirinn, skáldið og svikahrappurinn Michel de Notredame (Nostradamus, þið vitið) ritaði á sínum tíma:

L´an mil neuf cens nonante neuf sept mois
Du ciel viendra grand Roi deffraieur
Rususciter le grand Roy d´Angolmois.
Avant apres Mars regner par bon heur.

eða

Árið 1999 og sjö mánuðir
Kemur konungur óttans af himni
Að endurvekja hinn mikla konung Mongóla.
Áður og síðar mun Mars ríkja, fyrir góða heppni.

Þrátt fyrir þetta hefur stjórn félagsins ekki í hyggju að fela sig undir rúmi í júlí og hvetur félagsmenn þess í stað að vera öðrum fordæmi og nota mánuðinn til hollrar og líffræðilegrar útivistar.
Þeim sem vilja fræðast nánar um feril Nostradamusar sem svikahrapps og lítt áreiðanlegs spámanns skal bent á bókina “The Mask of Nostradamus” (Prometheus Books, 1993) e. James Randi, töframann og baráttumann fyrir almennri skynsemi.  Lítið einnig endilega á heimasíðu James Randi Educational Foundation, http://www.randi.org/

Ólafur Patrick (opo@rhi.hi.is)

Auglýst eftir gömlum gögnum félagsins

Það er vel þekkt vandamál hjá félögum sem hafa ekkert fast heimilisfang að gögn þeirra eru á eilífu flandri á milli stjórna.  Gögnin eru oft geymd í pappakössum sem enda ýmist á skrifstofum eða heimilum stjórnarmanna.  Síðastliðið vor barst félaginu bréf frá Borgarskjalasafni Reykjavíkur.  Efni bréfsins var “Varðveisla heimilda um Reykjavík”.  Þar lýsir Borgarskjalasafn þeim áhuga sínum að fá til varðveislu bréf, fundargerðabækur, fréttabréf og annað útgefið efni, sjóðsbækur, ársreikninga og önnur fróðleg skjöl.  Skjöl félaga eru heimildir um félögin og forða þeim frá gleymsku.  Til boða stendur að starfsmaður safnsins fari yfir skjölin og verði félaginu innan handar um hvað skuli varðveita.  Borgarskjalasafn býðst til að bera kostnað sem hlýst af frágangi afhentra skjala í viðeigandi umbúðir, skráningu þeirra og varðveislu í traustum geymslu safnsins.  Félagið fengi lista yfir þau gögn sem það afhendir og hefðu félagar fullan aðgang að þeim.
Stjórn L.Í. telur að þarna sé kominn kjörinn staður til varðveislu skjala þess.  Einkum hugsum við um bréf félagsins, fundargerðabækur og ársreikninga.  Einnig tel ég að ráðlegt að þarna verði geymd rausnarleg gjöf Karls Skírnissonar til félagsins, en á aðalfundi 1997 færði hann félaginu öll fréttabréf og ráðstefnurit fyrstu 15 ára félagsins, innbundin af honum sjálfum.  Sárt ef þessi góða gjöf týndist í einhverjum kassa, engum til gagns.  Augljóst má vera mikilvægi þess að skjöl félagsins séu til í varanlegri geymslu.  Þá er mikið hagræði af því að stjórnarfólk svo og félagsfólk geti gengið að þessum skjölum á einum og vísum stað.  Því skora ég á alla sem hafa gögn frá félaginu uppi í hillu eða í kassa að hafa samband við undirritaðan svo hægt verð að huga að framtíðarvarðveislu þeirra.
Þeir félagar sem hafa áhuga á að segja sína skoðun á þessari hugmynd eru beðnir að hafa samband við undirritaðan eða senda félaginu bréf í pósthólf þess.

Guðjón.  (gudjon@hafro.is)
s:561-3715 

Næsti fyrirlestur

Næsti fyrirlestur félagsins verður haldinn fimmtudaginn 25. febrúar.  Þá mun Ólafur Dýrmundsson, ráðunautur, fjalla um lífræna ræktun á Íslandi.

Ábm. Ólafur Patrick Ólafsson