Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2021

Erindi/veggspjald / Talk/poster V59

Rannsóknir á sjúkdómum í íslenskum dúfum

Höfundar / Authors: Kristbjörg Sara Thorarensen

Starfsvettvangur / Affiliations: Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum

Kynnir / Presenter: Kristbjörg Sara Thorarensen

Hér á landi finnst þó nokkur fjöldi ræktaðra dúfna sem flokka má í bréf- og skrautdúfur. Þessar dúfur eru afkomendur bjargdúfunnar (Columba livia) sem búið er að rækta í mismunandi afbrigðum til að ná fram ákveðnum eiginleikum og útliti. Einnig finnast hópar villtra og hálfvilltra dúfna víðs vegar um landið en ekki er vitað nákvæmlega um uppruna þeirra. Sumar hafa líklega flogið hingað frá nágrannalöndunum en einnig hafa ræktaðir fuglar sjálfir valið líf í villtri náttúru fram yfir kofalífið. Litlar rannsóknir hafa verið gerðar á sjúkdómum í íslenskum dúfum en ætla má að tegundir sjúkdómsvalda hérlendis svipi til þeirra sem finnast erlendis. Til þess að kanna sjúkdómsvalda meðal íslenskra dúfna er nú verið að hrinda af stað rannsókn sem fara mun fram á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum að Keldum. Rannsóknin er styrkt af Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og miðar einkum að því að kanna tíðni sýklalyfjaónæmis hjá bakteríum í dúfum á Íslandi. Þar verður algengi Salmonella Typhimurium var. Copenhagen (STVC) í dúfum kannað en einnig verður rannsakað hvort ónæmir stofnar, bæði STVC og Escherichia coli (E. coli) bakteríunnar finnist í dúfum. Að auki verður sníkjudýrafána fuglanna rannsökuð en nú þegar hafa verið staðfest í dúfum á Íslandi innri sníkjudýrin Trichomonas gallinae sem veldur kranka en einnig iðraþráðormarnir Ascaridia columbae og Capillaria ormar. Þau ytri sníkjudýr sem greind hafa verið á dúfum hérlendis eru naglýsnar Columbicola columbae og Campanulotes compar.