Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2021

Erindi/veggspjald / Talk/poster V5

Lífsögubreytur klettafrúr (Saxifraga cotyledon L.) á Íslandi

Höfundar / Authors: Álfur Birkir Bjarnason (1), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (1)

Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Háskóli Íslands

Kynnir / Presenter: Álfur Birkir Bjarnason

Lífsaga (e. Life history) lýsir lífsferli og fórnarskiptum lífveru með tilliti til vaxtar og æxlunar. Hjá plöntum tekur hún m.a. til fræstærðar, lágmarksstærðar fyrir æxlun, vaxtarhraða, æxlunarátaks, dánarhraða og ævilengdar. Til að mynda geta plöntur verið fjölærar en einæxla. Þær leggja þá miklar auðlindir í upphafi lífsferils síns í vöxt en fresta blómgun og deyja að henni lokinni. Til að vega upp á móti færri æxlunaratburðum yfir lífsleiðina þurfa fræin sem einæxla fjölærar plöntur mynda annaðhvort að vera fleiri eða lífvænlegri. Slík lífsaga er fágæt í íslenskri flóru þar sem < 2% æðplöntutegunda eru fjölærar og einæxla. Klettafrú (Saxifraga cotyledon L.) er ein þeirra. Sumarið 2021 voru merktar 207 plöntur á 4 klettaveggjum í Fljótshverfi og eftirfarandi breytur skráðar: þéttleiki plantna, þvermál blaðhvirfingar, fjöldi blaða og blaðhvirfinga, blómgunartíðni og fjöldi aldina í blómskipuninni. Fræi var safnað seinni hluta ágúst. Fyrstu niðurstöður benda til þess að stærð íslensku plantnanna við blómgun sé allt að tvöfalt meiri en hjá sænskum stofni. Aðeins blómguðust um 5,8% stofnsins sem gæti bent til langs kynslóðatíma, lágrar lifunar, ójafnrar nýliðunar eða þess að árið 2021 hafi verið óhagstætt fyrir blómgun. Stærðardreifing plantnanna bendir til þess að fáar ungplöntur deyi áður en þær nái fullri stærð. Hér munum við kynna þessar fyrstu niðurstöður um stærðardreifingu, lágmarksstærð fyrir blómgun og vaxtarhraða klettafrúr á Íslandi.