Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2017

Erindi/veggspjald / Talk/poster E69

Heilbrigði sjávarvistkerfa metið með hjálp burstaormsins Capitella capitata: kostir og gallar vísitegundar

Höfundar / Authors: Sunna Björk Ragnarsdóttir (1), Sölvi Rúnar Vignisson (2), Íris Mýrdal Kristinsdóttir (2) Gunnar Þór Hallgrímsson (3), Halldór Pálmar Halldórsson (4)

Starfsvettvangur / Affiliations: 1) Náttúrustofa Suðvesturlands, 2) Þekkingarsetur Suðurnesja 3) Háskóli Íslands, 4) Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum

Kynnir / Presenter: Sunna Björk Ragnarsdóttir

Mikilvægt er að fylgjast með strandsvæðum til að kanna ástand þeirra og meta undir hversu miklu og hve alvarlegu álagi þau eru. Oft er notast við ákveðnar mælistikur eða vísa sem geta dregið upp mynd af ástandi umhverfisins á sem hagkvæmastan, nákvæmastan og auðveldastan máta. Vistfræðilegir vísar (e. ecological indicators) eru mælistikur sem notast er við til að leggja heildarmat á heilbrigði ákveðinna svæða eða vistkerfa.
Burstaormurinn Capitella capitata er vel þekkt vísitegund fyrir lífræna mengun og mikið notuð við að leggja mat á röskun vistkerfa bæði hérlendis og erlendis. C. capitata er tækifæristegund sem þolir vel lífræna mengun og getur náð miklum fjölda á stuttum tíma við ákveðnar aðstæður. Fylgst var með þéttleika burstaormsins í setfjöru við Sandgerði yfir tveggja ára tímabil með mánaðarlegum sýnatökum til að kanna breytileika í fjölda. Hér er skoðað samband fjölda C. capitata við hitastig og staðsetningu í fjöru til þess að varpa ljósi á hvaða fleiri þættir en mengun geta haft áhrif á þéttleika tegundarinnar í tíma og rúmi. Farið verður yfir líffræði tegundarinnar og notagildi hennar í mengunarrannsóknum bæði hérlendis og erlendis. Þegar C.capitata er notuð sem vistfræðilegur vísir getur þurft að taka fleiri þætti en mengunarálag inn í myndina til að sem réttast mat fáist á heilbrigði vistkerfisins.