Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2017

Erindi/veggspjald / Talk/poster E39

Jarðhitavistgerðir

Höfundar / Authors: Rannveig Thoroddsen (1), Ásrún Elmarsdóttir (1)

Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Náttúrufræðistofnun Íslands

Kynnir / Presenter: Rannveig Thoroddsen

Rannsóknir á gróðurfari og umhverfisþáttum á jarðhitasvæðum hófust á Náttúrufræðistofnun Íslands árið 2001. Á háhitasvæðum var gagna aflað á árunum 2001–2002 og 2005–2008 og á lághitasvæðum árin 2012–2013. Gögnum var aflað á allflestum háhitasvæða landsins og á lághitasvæðum um allt land. Mælingasvæði voru afmörkuð eftir ummerkjum um jarðhita á yfirborði og þar sem hiti í jarðvegi mældist yfir 15°C á 10 cm. Á hverju mælingasvæði voru mörk gróðurfláka ákvörðuð með sjónmati á vettvangi og færð inn á myndkort. Alls voru flákarnir 361 en fjöldi og stærð fláka á mælingasvæði var misjafn eftir fjölbreytileika í jarðhita, gróðri og landgerðum.
Flokkun jarðhitavistgerða var byggð á tegundasamsetningu 231 tegund æðplantna í 361 fláka. Við greiningu fláka í vistgerðir var beitt TWINSPAN-flokkun og DCA-hnitun fyrir utan hveraleirsvist sem var flokkuð handvirkt út frá landgerð og sjónmati á vettvangi. Fjórar jarðhitavistgerðir voru skilgreindar: hveramýravist, hveramóavist, hverafjallavist og hveraleirsvist. Nokkur munur er á gróðurfari þeirra og eru sterk tengsl við hæð yfir sjó og ársmeðalhita. Þegar á heildina er litið finnst hverafjallavist á svæðum sem liggja yfir 700 m h.y.s. en hveramýravist og hveramóavist neðan þeirra marka. Hveraleir finnst víða á jarðhitasvæðum og tengist ekki hæð yfir sjó. Verndargildi vistgerðanna var metið út frá fágæti og tegundaauðgi og voru þær metnar með hátt eða mjög hátt verndargildi.