Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2017

Erindi/veggspjald / Talk/poster E38

Fjöruvistgerðir á Íslandi

Höfundar / Authors: Gunnhildur Ingibjörg Georgsdóttir, Karl Gunnarssson, Sigríður Kristinsdóttir, Guðmundur Guðmundsson

Starfsvettvangur / Affiliations: Náttúrufræðistofnun Íslands

Kynnir / Presenter: Gunnhildur Ingibjörg Georgsdóttir

Fjaran er landræman milli lands og sjávar, sem flæðir af þegar lágsjávað er en fer á kaf eða brimar yfir á flóði. Umhverfi hennar er því breytilegt og myndar einstakar aðstæður fyrir lífverur. Árið 2006 gaf Agnar Ingólfsson út rit þar sem lífríki fjörunnar er flokkað eftir umhverfisþáttum. Náttúrufræðistofnun Íslands byggði á flokkun Agnars og flokkaði fjörur landsins nánar eftir samevrópsku kerfi (EUNIS-kerfið). Fjölritið Vistgerðir á Íslandi (Jón Gunnar Ottóson o.fl., 2016) lýsir vistgerðum lands, vatns og fjöru með útbreiðslukortum hverrar vistgerðar. Flokkunarkerfi fjara eftir vistgerðum er þrepaskipt þar sem efstu og víðtækustu flokkarnir miðast við gerð undirlags, brimasemi og fleiri eðlislæga þætti en þegar komið er í neðri þrep flokkunarinnar er tekið mið að tegundasamsetningu lífríkisins.
` Skilgreindar vistgerðir í fjörum landsins voru kortlagðar eftir loftmyndum í Landfræðilegu upplýsingakerfi (ArcGis), heimildum og vettvangsathugunum. Á loftmyndum er oftast hægt að greina efri vistgerðaflokkana en til að greina neðri og nákvæmari vistgerðaþrepin þarf að byggja á vettvangsathugunum. Niðurstaðan er fyrsta heildstæða fjöruvistgerðakort landsins. Kortlagningin er þó ekki tæmandi, einkum hvað varðar neðri vistgerðaþrepin, og þarfnast frekari endurbóta eftir því sem fjörur landsins eru betur kannaðar.
Fjörur Íslands þekja um 1008 km2 og skiptast í 24 misvíðtækar vistgerðir. Líflitlar sandfjörur og þangfjörur hafa mesta dreifingu umhverfis landið, en víðfeðmasta fjörugerðin er leirur, einkum sandmaðksleirur.