Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015

Erindi/veggspjald / Talk/poster V99

Hvernig viðhelst mæði-visnuveira í kindinni þrátt fyrir öflugt ónæmissvar?

Hallgrímur Arnarson (1,2), Arnar Pálsson (3), Margrét Guðnadóttir (1), Valgerður Andrésdóttir (2)

1. Rannsóknastofa í veirufræði, læknadeild Háskóla Íslands, 2. Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, 3. Líf- og umhverfisvísindastofnun Háskóla Íslands

Kynnir / Presenter: Valgerður Andrésdóttir

Tengiliður / Corresponding author: Valgerður Andrésdóttir (valand@hi.is)

Mæði-visnuveira á það sameiginlegt með öðrum lentiveirum (þ.á.m. HIV) að hún helst í líkamanum þrátt fyrir öflugt ónæmissvar. Yfirborðsprótein lentiveira eru á meðal sykruðustu próteina sem þekkjast, og hafa komið fram kenningar um að sykurhjúpurinn sé síbreytilegur og verji veirurnar fyrir mótefnasvari. Við sýndum í fyrri rannsókn að flestir veirustofnar sem voru einangraðir úr kindum sem höfðu verið sýktar með tilraunasýkingu , voru lítið stökkbreyttir og ekki með breytt væki. Í þessari tilraun voru veirustofnar úr kindum sem sýktust á eðlilegan hátt rannsakaðir. Ósýktar kindur voru hafðar með kindum sem höfðu verið sýktar með mæði-visnuveiru. Allar kindur sýktust, og voru veirur einangraðar, og u.þ.b. 450 bp bútur úr vækisstöð yfirborðspróteins klónaður og raðgreindur. Allir veirustofnar úr kindum sem sýktust á þennan hátt höfðu stökkbreytingar í vækisstöð sem leiddu til þess að þeir komust undan sértæku ónæmissvari. Flestar þessar stökkbreytingar voru í sykrunarseti, sem styður þá tilgátu að sykrunin gegni sérstöku hlutverki hjá þessum veirum við að komast undan ónæmissvarinu. Veiran virðist því fela sig fyrir ónæmiskerfinu bæði með því að leggjast í dvala í langlífum frumum, en einnig með því að breyta stöðugt ónæmisvökum á yfirborði sínu. Það virðast aðallega vera veirur, sem komast undan ónæmissvarinu, sem berast á milli í náttúrulegri sýkingu.