Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015

Erindi/veggspjald / Talk/poster V32

Merkingar á æðarfugli á sjö stöðum á sunnanverðum Breiðafirði

Jón Einar Jónsson (1), Árni Ásgeirsson (1)

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi

Kynnir / Presenter: Jón Einar Jónsson

Tengiliður / Corresponding author: Jón Einar Jónsson (joneinar@hi.is)

Val á hreiðurstæði fugla er mikið til háð því að forðast rándýr. Hafið er langtíma merkingarverkefni í sunnanverðum Breiðafirði þar sem val á hreiðurstæði verður tengt við átthagatryggð og varpárangur hjá æðarkollum. Markmiðin eru að 1) kanna hvort æðarkollur færi sig milli eyja. 2) skýra einstaklingsbreytileika í vali á hreiðurstæði og varpárangri. 3) bera saman varpárangur, álegu og átthagatryggð milli rannsóknareyjanna, sem eru ólíkar um staðhætti, gróðurfar, afræningja og tegundir varpfugla sem hafa áhrif á öryggi æðarkollnana. Þessar spurningar tengjast líka staðháttum eins og t.d. hver eru áhrif fjarlægðar frá sjó á afdrif hreiðra. Feltvinna í maí og júní felur í sér föngun, merkingar og mælingar á kvenfuglum og mælingar á varpárangri og líkamsástandi. Sumarið 2014 voru 36 æðarkollur merktar í Landey við Stykkishólm og náðust 21 þeirra (58% endurheimtur) aftur 2015. Fimm þeirra (24%) urpu í sama hreiður bæði árin, aðrar fimm (24%) færðu sig 1-19 m milli ára en ellefu (52%) færðu sig 20 m eða lengra en mesta færslan var rúmlega 100 metrar. Sumarið 2015 voru merktar með litmerkjum 198 æðarkollur. Sérstaða rannsóknarsvæðisins er breytileiki í gróðurfari, landslagi og aðgengi rándýra að vörpunum, sem aftur leiða til breytileika í hreiðurstaðavali innan og milli varpstaða. Áætlað er að merkja 100-200 kollur árlega, verkefnið verði langtíma stofnrannsókn og bakland fyrir smærri rannsóknaverkefni.