Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015

Erindi/veggspjald / Talk/poster V24

Tilraunaverkefni um burðarplastpokalaust sveitarfélag

Menja von Schmalensee (1,2), Theódóra Matthíasdóttir (1,2), Róbert A. Stefánsson (1,2), Rannveig Magnúsdóttir (3) og Stefán Gíslason (4)

1. Umhverfishópur Stykkishólms, 2. Náttúrustofa Vesturlands, 3. Landvernd, 4. Umís Environice

Kynnir / Presenter: Menja von Schmalensee

Tengiliður / Corresponding author: Menja von Schmalensee (menja@nsv.is)

Einnota plastpokar eru táknrænir fyrir sóun og slæma umgengni við náttúruna. Á árinu 2014 vann Umhverfishópur Stykkishólms að tilraun til að draga verulega úr notkun plastpoka í sveitarfélaginu. Markmið verkefnisins var að athuga hvort hægt væri að gera heilt sveitarfélag burðarplastpokalaust með fræðslu- og hvatningaátaki, en án formlegra boða og banna. Lögð var mikil áhersla á miðlun upplýsinga til þjónustuaðila og almennings. Fræðslupistlar og fréttatilkynningar birtust í fjölmiðlum og haldið var úti virkri Fésbókarsíðu (Burðarplastpokalaus Stykkishólmur). Útbúið var sérstakt fræðsluplakat og því dreift um bæinn og verkefnið stóð fyrir myndbandasamkeppni um plast. Haft var náið samráð við verslunar- og þjónustuaðila og þeir aðstoðaðir við að finna lausnir sem hentuðu hverjum rekstri. Viðbrögðin voru afar jákvæð og hættu öll fyrirtæki og stofnanir í sveitarfélginu notkun burðarplastpoka, að einu undanskildu. Plastpokinn var kvaddur að viðstöddu margmenni með mikilli hátíð þann 12. september. Þjónustuaðilar sem hættu með burðarplastpoka voru merktir með sérstökum „Burðarplastpokalaus – plastic bag free“ límmiðum og borðstöndum. Tilraunaverkefnið tókst framar vonum og verulega dró úr notkun plastpoka. Íbúar tóku átakinu afar vel og fjölmiðlaumfjöllun var áberandi. Verkefnið sýnir að hægt er að ná miklum árangri með viðvarandi fræðslu og kynningu. Fullnaðarárangur næst þó tæplega án allsherjarbanns við notkun. Verkefnið var styrkt af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.