Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015

Erindi/veggspjald / Talk/poster V17

Samspil beitar og umhverfis

Jóhann Þórsson

Landgræðsla ríkisins

Kynnir / Presenter: Jóhann Þórsson

Tengiliður / Corresponding author: Jóhann Þórsson (johann.thorsson@land.is)

Áhrif beitar á land eru margvísleg. Þar á sér stað flókin samverkun sem ræðst af aldri dýrs og ástandi, fjölda þeirra á hverjum tíma, árstíð, veðurfari og svo þeim gróðurlendum sem bitin eru, gerð þeirra og ástandi. Fyrir vikið getur reynst erfitt að meta áhrif beitar. Beit er á hinn bóginn sú landnýting sem krefst einna mests lands og hefur jafnframt víðfeðm áhrif á það. Þess vegna er mikilvægt að skilja þetta samspil og hvernig beit getur haft áhrif á framvindu gróðurs innan vistkerfa þó rannsóknaáherslur síðustu áratuga endurspegli ekki endilega þá þörf. Mikilla upplýsinga um áhrif beitar og beitarþunga á gróðurfar og beitardýr var aflað með viðamiklum beitartilraunum á áttunda og níunda áratugnum. Þær rannsóknir beindust fyrst og fremst að því að auka afurðarsemi af búfé en jafnframt komu þar fram vísbendingar um hversu brothætt samspil búfjár og beitilanda er. Vistfræðirannsóknir síðari ára hafa jafnframt veitt okkur skilning á því hvaða þættir það eru sem gera þetta samspil svona viðkvæmt og hvers vegna íslensk vistkerfi hafa farið svo illa af völdum beitar miðað við vistkerfi nágrannalanda okkar. Síauknar kröfur um endurheimt landgæða, eflingu vistkerfa og þar með krafa um að landnýting sé að lágmarki sjálfbær, og jafnframt sú staðreynd að beitarnýting verður áfram undirstöðuþáttur landnýtingar íslensks landbúnaðar, kallar á að sjónum sé beint að beit, ástandi lands og samspili beitar hennar við umhverfið.