Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015

Erindi/veggspjald / Talk/poster E65

Undirtegundir á norðlægum slóðum: greining á útlitsbreytileika vaðfugla

Snæbjörn Pálsson, Julien Amouret

Háskóli Íslands, Líf og umhverfisvísindadeild

Kynnir / Presenter: Snæbjörn Pálsson

Tengiliður / Corresponding author: Snæbjörn Pálsson (snaebj@hi.is)

Eitt einkenni líffræðilegs breytileika á norðlægum slóðum, hvort sem varðar útlit eða erfðabreytileika tegunda, er lítill breytileiki innan vissra svæða en skörp skil milli stofna á mismunandi svæðum. Þessi landfræðilega uppskipting breytileikans hefur í mörgum tilvikum leitt til þess að stofnar innan tegunda hafa verið flokkaðir sem undirtegundir sem virðast vera komnar mislangt á veg sem aðskildar tegundir. Á Íslandi er hlutfall undirtegunda meðal fugla nokkuð hátt í ljósi þess hversu fáar einlendar tegundir eru hér, en 14 af 75 tegundum hér á landi hefur verið lýst sem undirtegundum. Ástæða þessarar uppskiptingar í breytileika hefur verið rakin til tveggja megin tilgátna. Í fyrsta lagi vegna sögulegra áhrifa af endurteknum jökulskeiðum ísaldar á síðustu þremur milljónum ára þar sem stofnar tegunda, sem lifðu í einangrun á íslausum svæðum jökulskeiðanna á suðlægum breiddargráðum eða íslausum svæðum t.d. umhverfis Beringsund, aðgreindust og hafa aukið útbreiðslu sína eftir síðasta kuldaskeið. Önnur tilgáta snýst um einangrun vegna fjarlægðar, þeir stofnar sem eru aðskildir með meiri landfræðilegum fjarlægðum eru ólíkari en þeir sem eru nær hver öðrum vegna þess að lengri tími er liðinn frá því að þeir deildu sameiginlegum forfeðrum. Hringtegundartilgátan segir að umhverfis Norðurpól geti slík einangrun umhverfis pólinn leitt til þess einstaklingar sem eru á sitthvorum endum í útbreiðslu tegunda verið það ólíkir að þeir geti jafnvel flokkast til ólíkra tegunda. Í fyrirlestrinum fjalla ég um greiningu á útlitseiginleikum undirtegunda meðal þrettán tegunda vaðfugla á norðurslóðum, hvort þær uppfylli skilgreiningu Amadons um undirtegundir, sem byggir á skörun dreifinga. Athugað verður hvernig aðgreiningin sé bundin við kyn og hvort hún beri frekar merki landfræðilegrar aðgreiningar en sögulegrar uppskiptingar.