Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015

Erindi/veggspjald / Talk/poster E59

Veirur sem sýkja hjartavef í laxi

Birkir Þór Bragason , Sigríður Guðmundsdóttir

Tilraunastöð H.Í. í meinafræði að Keldum

Kynnir / Presenter: Heiða Sigurðardóttir

Tengiliður / Corresponding author: Heiða Sigurðardóttir (heidasig@hi.is)

Markmið verkefnisins var að setja upp og prófa greiningaraðferðir fyrir tvær nýlega skilgreindar RNA-veirur, sem valda sjúkdómum í laxi. Sjúkdómanna varð fyrst vart í Noregi á seinni hluta 20. aldar, en þeir valda umtalsverðum afföllum í sjókvíaeldi þar og víðar við N-Atlantshaf. PRV eða „piscine reovirus“ getur valdið hjarta- og vöðvabólgu og einkenna verður vart 5-9 mánuðum eftir flutning í sjó. PMCV eða „ piscine myocarditis virus“ veldur hjartarofi og einkenni koma fram eftir 12-18 mánuði í sjó. Aldrei hefur vaknað grunur um framangreinda sjúkdóma á Íslandi. Sýni voru tekin úr villtum laxi, laxi í strandeldisstöð og sjókvíum. Í hverjum hópi voru 32 einstaklingar og voru tekin vefjasýni úr hjarta, nýra og tálknum. RNA var einangrað úr sýnunum með RNeasy einangrunarkitti og notað í „One Step RT-qPCR“ hvörf. Hvarfaðstæður, vísar og þreifarar voru byggðar á birtum aðferðum. Viðmiðunargen var elongation factor 1 alpha (ELF1A). PMCV greindist ekki í neinu sýnanna en PRV skimunin sýndi 21,9% tíðni í villta fiskinum og 100% í báðum eldishópunum. Ct. gildin fyrir PRV keyrslurnar voru á breiðu bili, þ.e. 19,8-43,9. ELF1A gildi allra sýnanna voru innan viðmiðunarmarka. Niðurstöðurnar sýna að áhugavert væri að prófa fleiri sýni úr mismunandi hópum laxa, úr öðrum laxfiskum, þ.e. bleikju, urriða og regnbogasilungi og algengum tegundum sjávarfiska. Í erindinu verða einnig kynntar nýjar niðurstöður úr stærri rannsókn sem fór af stað í vor og er í beinu framhaldi af þessu verkefni.