Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015

Erindi/veggspjald / Talk/poster E5

Áhrif varptíma æðarfugls á tíðni afráns hreiðra

Aldís Erna Pálsdóttir (1), Jón Einar Jónsson (1,2), Róbert Arnar Stefánsson (3), Árni Ásgeirsson (2)

1. Háskóli Íslands, Líf- og Umhverfisvísindadeild. 2. Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi 3. Náttúrustofa Vesturlands

Kynnir / Presenter: Aldís Erna Pálsdóttir

Tengiliður / Corresponding author: Aldís Erna Pálsdóttir (aep5@hi.is)

Afrán á hreiður andfugla getur haft mikil áhrif á stofnstærð. Hjá æðarfugli er hlutfallslega mest afrán af eggjum og ungum en árlegar lífslíkur fullorðinna háar. Tímasetning varps, sem er mjög mismunandi milli einstaklinga, er meðal þeirra þátta sem gætu haft áhrif á líkur þess að hreiður séu rænd. Markmið þessarar rannsóknar var að athuga hvernig líkur á afráni tengdust varptíma æðarfuglsins. Rannsóknin fór fram í fimm eyjum í Breiðafirði sumarið 2014. Hver eyja var heimsótt tvisvar, í upphafi varps og þegar því var lokið. Varptími var ákvarðaður með vatnsprófi á eggjum og sagði ástand egghimna að loknu varpi til um það hvort hreiðrið hefði verið rænt eða ungað út. Meiri líkur voru á því að allra fyrstu hreiðrin væru rænd en afránið minnkaði eftir því sem leið á varptímann og var minnst á hreiður sem orpið var seint í, þ.e. 3-4 vikum eftir upphaf varps. Líklega er afránsþrýstingur meiri á fyrstu hreiðrin vegna þess að þá eru hlutfallslega fleiri afræningjar á hvert hreiður. Eins eru þau berskjaldaðri vegna þess að gróður er skemur á veg kominn og litla vernd er að hafa frá nærliggjandi kollum eða máfum. Máfar eiga það til að ráðast á mögulega afræningja sem nálgast hreiður þeirra og njóta aðrir varpfuglar í grennd oft góðs af því. Meðalvarptími æðarfugls getur verið breytilegur milli ára en hnattræn hlýnun hefur þó valdið því að varp hefjist fyrr. Þetta getur haft áhrif á samspil æðarfugls og afræningja, einkum ef tegundir svara hlýnun ekki á sama hátt.