Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015

Erindi/veggspjald / Talk/poster E44

Virkni Hif1-umritunarþáttar við mismunandi styrkleika súrefnis

Daniel E. Foxler(1), Katherine S. Bridge(1), Sigurður Ingvarsson(2), Tyson V. Sharp(1)

1. Háskólinn í Nottingham, UK, 2. Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum

Kynnir / Presenter: Sigurður Ingvarsson

Tengiliður / Corresponding author: Sigurður Ingvarsson (siguring@hi.is)

Hif1 (hypoxia-inducible factor) er lykilumritunarþáttur í efnaskiptum og æðamyndun. Við eðlilegan súrefnisstyrk tengir ensímið Phd (prolyl hydroxylase) hýdroxýlhópa á tvær prólín amínósýrur í Hif1. Við þetta verður samsöfnun á próteinflóka sem leiðir til niðurbrots á Hif1 í próteasómum. Þannig er virkni Hif1-umritunarþáttar stýrt með prótein-niðurbroti. Sýnt hefur verið fram á að Limd1 og Vhl eru mikilvæg prótein í þessum flókum, Limd1 sem tengisameind milli Pdh2 og Vhl og Vhl sem tengisameindir yfir í ubiquitin-lígasa próteinflóka. Margt er óljóst varðandi gerð og starfsemi próteinflókans. Til að skýra áhrif Limd1 á virkni Hif1 voru framkvæmdar frumuræktunartilraunir í mismunandi súrefnisstyrk (1% og 20%), þar sem skrúfað var frá og fyrir genatjáningu Limd1 með því að innlima tjáningarvektora og með shRNA tækni. Einnig var tjáning á markgenum Hif1 mæld með qRT-PCR tækni. Sýnt var fram á Limd1 er mikilvæg tengisameind fyrir Phd2-Vhl og fyrir færslu hýdroxýlhópa yfir á Hif1. Þannig stuðlar Limd1 að niðurbroti á Hif1, einkum við hærri styrk súrefnis. Við minni tjáningu á Limd1 og við aukinn súrefnisstyrk kemur fram aukið magn Hif1 og aukin tjáning markgena. Álykta má að Limd1 taki þátt í samsöfnun á próteinflóka og sé mikilvægur hlekkur í að stjórna færslu hýdroxýlhópa yfir á Hif1 og niðurbroti á Hif1 með úbiquitín-próteasóm ferli.