Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015

Erindi/veggspjald / Talk/poster E16

Aðgerðir gegn ágengum plöntum

Róbert A. Stefánsson og Menja von Schmalensee

Náttúrustofa Vesturlands

Kynnir / Presenter: Róbert A. Stefánsson

Tengiliður / Corresponding author: Róbert A. Stefánsson (robert@nsv.is)

Stykkishólmsbær, í samvinnu við Náttúrustofu Vesturlands, hóf sumarið 2010 aðgerðir gegn plöntutegundum sem taldar eru ágengar eða mögulega ágengar í bæjarlandinu: Alaskalúpína Lupinus nootkatensis, skógarkerfill Anthriscus sylvestris, spánarkerfill Myrrhis odorata og risahvannir Heracleum spp. Áður en aðgerðir hófust fannst lúpína á 148 stöðum og þakti ríflega 10 ha, skógarkerfill á 37 stöðum og náði yfir 0,15 ha, spánarkerfill á 41 stað og náði yfir 0,1 ha. Risahvannir hafa fundist á 14 stöðum. Markmið aðgerðanna er að útrýma öllum framangreindum tegundum. Lúpínan er slegin einu sinni á ári við lok blómgunartíma, kerflar slegnir þrisvar á hverju sumri og risahvannir grafnar upp. Talsverður árangur hefur náðst, en þó mismikill eftir tegundum. Verulegur árangur hefur náðst gegn lúpínu. Útbreiðslan hefur dregist mikið saman og eru svæði sem áður voru þakin lúpínu á góðri leið með að breytast í graslendi. Niðurstöður magnbundinna mælinga í tilraunareitum staðfesta þetta. Árangurinn virðist minnstur af aðgerðum gegn kerflunum en illa hefur gengið að minnka útbreiðslu þeirra. Risahvannir hafa verið fjarlægðar af öllum fundarstöðum nema einum. Árlega er nokkuð um endurvöxt á sumum fundarstaðanna, sem fjarlægður er jafn harðan. Verkefnið hefur verið lærdómsríkt og leitt í ljós nokkrar mögulegar hindranir slíkra aðgerða. Mikilvægt er að vinna sem mest með samfélaginu, en jafnframt er skortur á lagaheimildum til aðgerða á eignarlöndum og einkalóðum ef íbúar eru mótfallnir aðgerðum.