Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2015

Erindi/veggspjald / Talk/poster E106

Líffræði skarkolaungviðis í sandfjöru. Áhrif umhverfis og þéttleika á vöxt.

Elzbieta Baranowska (1,2), Jónas Páll Jónasson (1), Björn Gunnarsson (1) og Guðrún Marteinsdóttir (2)

1. Hafrannsóknastofnun, 2. Háskóli Íslands

Kynnir / Presenter: Elzbieta Baranowska

Tengiliður / Corresponding author: Elzbieta Baranowska (ella@hafro.is)

Uppeldissvæði skarkolaseiða (Pleuronectes platessa) er að finna í sandfjörum allt í kringum Ísland. Fjörurnar eru mikilvægar fyrir afkomu seiða og þar geta bæði lífrænir- og ólífrænir ferlar haft áhrif á nýliðun. Botntaka skarkolaseiða hefst snemmsumars þegar sviflægar lirfur ganga í gegnum myndbreytingu og verða að botnlægum seiðum. Þau leita fæðu og skjóls fyrir afræningjum hátt í fjörunni yfir sumarið en fikra sig dýpra þegar líður að hausti. Frá árinu 2005 voru sýni tekin árlega með bjálkatrolli á u.þ.b. tveggja vikna fresti í Helguvík á Álftanesi frá vori og fram á haust. Botntakan hófst í maí eða byrjun júní og varði fram í miðjan júlí þegar hámarks þéttleika var náð. Þrír misstórir nýliðunarhópar voru oftast greinanlegir. Þéttleiki skarkolaseiða var mjög breytilegur milli ára. Áhrif þéttleika og hitastigs á vöxt seiðanna voru könnuð. Mælingar á dægurhringjum í kvörnum seiða úr sýnum sem tekin voru annarsvegar 2005 og hinsvegar 2012 sýna að marktækur munur var á dægurvexti milli þessara ára þrátt fyrir sambærilegt hitastig. Vöxtur var hraðari árið 2005 en þá mældist þéttleiki jafnframt mun minni en samanburðarárið 2012, sem bendir til þéttleikaháðra áhrifa á vöxt á uppeldissvæði skarkolans í Helguvík.