Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Erindi 85Náttúrufarsrannsóknir í Framhaldsskólanum í Austur-SkaftafellssýsluHjördís Skírnisdóttir (hjordis@fas.is)

Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu

Í Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu er lögð áhersla á náin tengsl skólans við nærumhverfi sitt, bæði félagslega og náttúrufarslega.  Stundaðar hafa verið mælingar og rannsóknir á jökulsporðum, framvindu gróðurs í á Skeiðaraársandi, viðgangi álftastofnsins í Lóni og fuglar hafa verið taldi í Óslandi.  Með þessum verkefnum er verið að setja þekkingu nemenda í samhengi við það sem blasir við þeim og þjálfa þá í að beita í sínu umhverfi þeirri þekkingu og leikni sem þeir hafa tileinkað sér.  Nemendur þjálfast einnig í vísindalegum vinnubrögum í verkefnum sem hafa gildi bæði fyrir almenning og vísindin.  Um leið verða til gögn sem eru áhugaverð fyrir íbúa svæðisins og vísindamenn almennt. 

Eftir hverja rannsóknaferð hafa nemendur þurft að vinna skýrslu þar sem komið er á framfæri helstu niðurstöðum. Í gegnum árin hafa því safnast saman alls kyns upplýsingar um þessi vöktunarverkefni skólans. Árið 2011 fékk skólinn styrk frá Vinum Vatnajökuls til að safna fyrirliggjandi upplýsingum saman og koma þeim á framfæri á vef skólans.  Þar eru birt rannsóknargögn, myndir, skýrslur og annað efni sem hefur orðið til í náttúrufarsrannsóknum skólans.  Þessi gögn eru uppfærð reglulega og öllum aðgengileg. Með tímanum ættu því að safnast saman mikilvægar upplýsingar um náttúru svæðisins.Slóðin á vef vöktunarverkefnanna er http://nattura.fas.is/