Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Erindi 61Þemakennsla um Vogatjörn í 12 árÞorvaldur Örn Árnason ( valdurorn@simnet.is)

Stóru-Vogaskóli

Frá aldamótum hef ég kennt 6. bekk Stóru-Vogaskóla um lífríki í vatni og notið þess að hafa Vogatjörn aðeins 100 m frá skólanum. Kennslutíminn er frá skólabyrjun og til loka október, 4 kennslustundir í viku. Bekkjarstærð er á bilinu 15 – 26 nemendur. Ég hef nokkuð vel útbúna kennslustofu með 7 víðsjám, 5 smásjám og að auki einni smásjá sem hægt er að tengja við tölvu og taka bæði ljósmyndir og kvikmyndir. Kennslugögnin eru bækur, fjölrit, kvikmyndir og vefir. Ég hef útbúið talsvert af verkefnum sjálfur og aðlagað önnur. Bekkirnir eru misjafnir og tíðarfarið líka og það ræður nokkru um það hvað tekið er fyrir og í hvaða röð. Byrjum gjarna á að safna og pressa plöntur við og í tjörninni og líma upp á veggspjöld. Síðan söfnum við í ferskvatnsker og skoðum, lesum um og ræðum um hornsíli, ál, ýmis smádýr, fugla, og hvernig þetta allt myndar fæðuvef, líffélag og vistkerfi. Nokkrum sinnum fer allur bekkurinn út að skoða og safna og stundum sendi ég lítla hópa til að leita að tilteknum lífverum eða mæla eitthvað eða mynda.Fyrstu árin mældum við líka nokkra eðlisþætti vatnsins (hita, leiðni, gegnskin ...) og skráðum í alþjóðlega Globe-vefinn. Eftir að við eignuðumst tölvutengdu smásjána 2007 hafa nemendur tekið talsvert af myndum í smásjánni og sumt hef ég klippt og sett á vefinn. Ég þykist merkja breytingu á viðhorfi barnanna til þess að grúska í tjörninni og tel meira um að þau veigri sér við að koma nálægt tjörninni og að ganga í blautu grasi sem skemmi fínu skóna þeirra – að æ fleiri eigi ekki stígvél og hafi litla sem enga hornsílaveiðireynslu.Vogatjörn er nokkuð afmarkað viskerfi og að mínu mati heppileg til kennslu um líffjölbreytni og vistfræði sem nemendur yfirfæra vonandi á fleiri svið lífheimsins.Á sama árstíma er 7. bekkur með þemað fjaran og hafið með svipuðum aðferðum enda er lífrík og fjölbreytt fjara líka við vegg skólans.Ég mun skýra frá þessari kennslureynslu minni í máli og myndum, sýna nokkur námsgögn og vonandi eiga góða samræðu við þá sem mæta.