Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Erindi 20



Þróun og eðli Ichthyophonus hoferi sýkingarfaraldurs í íslenskri sumargotssíld



Guðmundur J. Óskarsson og Jónbjörn Pálsson

Hafrannsóknastofnun, Skúlagata 4, 105, Reykjavik

Kynnir: Guðmundur J. Óskarsson
Tengiliður: Jónbjörn Pálsson (jonbjorn@hafro.is)

Frá haustinu 2008 til 2012 herjaði skæður Ichthyophonus hoferi sýkingarfaraldur á íslenska sumargotssíld. Umfangsmiklar sýnasafnanir og rannsóknir hafa farið fram á þessu tímabili til að ákvarða meðal annars umfang, breytileika og þróun sýkingarinnar í stofninum svo og áhrif hennar á stofninn. Smásjárskoðun á hjörtum sílda var notuð til að greina hvort sýking væri til staðar og eins sýkingarstig þeirra frá 1 (væg sýking) til 4 (mjög mikil sýking). Sýkingarhlutfallið í veiðistofninum (aldur 4+) var frá 17-43% yfir þessi ár. Fyrstu tvo veturna þróaðist sýkingin í stofninum frá því að vera væg að hausti yfir í mikla seinna um veturinn, en slíka þróun var ekki að sjá veturna þar á eftir. Nýsmit átti sér auðsjánlega stað haustin 2008-2010, en ekki haustin þar á eftir þar sem árgangar eftir 2007 hafa verið nánast án sýkingar. Hlutfall sílda með væga sýkingu hefur haldist nokkuð óbreytt allt frá haustinu 2010, svo og sýkingarhlutfall innan einstakra árganga. Þrátt fyrir sterkar vísbendingar um ekkert nýsmit í stofninum síðan haustið 2010 hefur því sýkingarhlutfallið haldist hátt í stofninum. Þegar allt þetta er tekið saman segir það að sýkingardauði í stofninum hafi verið óverulegur síðan haustið 2010. Niðurstöðurnar sýna því að dauði af völdum þessa sýkils sé miklu minni en gert hefur verið ráð fyrir áður samkvæmt rannsóknum á öðrum síldarstofnum.