Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Erindi 89



Líf í affallsvatni háhitasvæða



Jón S. Ólafsson (1), Benoit Demars (2), Gísli Már Gíslason (3) og Ragnhildur Þ. Magnúsdóttir (1)

1) Veiðimálastofnun, Keldnaholti, Reykjavík
2) James Hutton Inst. Aberdeen
3) Háskóli Íslands, líf-og umhverfissvið, Reykjavík.

Kynnir/Tengiliður: Jón S. Ólafsson (jsol@veidimal.is)

Jarðhiti er eitt af einkennum náttúrufars landsins og þar skapa háhitasvæðin drjúgan sess. Háhitasvæði eru þau svæði þar sem hiti á 1000 m dýpi í jarðskorpunni er yfir 200 °C. Lífríki háhitasvæða er aðeins þekkt að takmörkuðu mæli. Segja má að mesta þekking sé á örverum og hágróðri enn sem komið er. Lítið er enn vitað um vatnalíf s.s. hryggleysingja eða þörunga í affallsvatni af háhitasvæðum. Meginmarkmið rannsóknarinnar á vatnalífi á háhitasvæðum er að afla grunnupplýsinga um gerðir lífverusamfélaga, hvað mótar vatnavistkerfi á háhitasvæðum og hver virkni þeirra er. Rannsóknin náði til 6 háhitasvæða sem eru á milli 85 og 1051 m h.y.s. Sýnatökur og mælingar voru gerðar í 2-8 lækjum á hverju svæði sem voru á bilinu 3-45 °C heitir. Leiðni í lækjunum var á bilinu 17-757 µS/cm2 og pH-gildi 3,9-9,8. Magn blaðgrænu var vart mælanlegt í sumum lækjanna, eða langt undir 1 µg/cm2 upp í að vera rúmlega 25 µg/cm2. Jókst magn blaðgrænu upp að vissu marki með hækkandi hita, en þar munaði mestu um hlut blágrænna baktería, þá einkum í heitari lækjunum. Ekki voru merkjanleg tengsl á fjölda hryggleysingjahópa né þéttleika þeirra við hita.