Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Erindi 59



Sjávarspendýr við Ísland. Er þeim tryggð fullnægjandi vernd og veiðistjórnun?



Menja von Schmalensee (1), Kristinn Haukur Skarphéðinsson (2), Hildur Vésteinsdóttir (3), Tómas Grétar Gunnarsson (4), Auður L. Arnþórsdóttir (5) og Hólmfríður Arnardóttir (6,6,6)

1) Náttúrustofa Vesturlands
2) Náttúrufræðistofnun Íslands
3) Umhverfisstofnun
4) Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi
5) Matvælastofnun
6) Fuglavernd

Kynnir: Hólmfríður Arnardóttir
Tengiliður: Menja von Schmalensee (menja@nsv.is)

Við Ísland má finna tvær staðbundnar selategundir en fjórar til viðbótar auk rostungs sjást hér reglulega. Þá hafa hér sést um 23 tegundir hvala og eru tólf þeirra nokkuð algengar. Nytjar af selum og hvölum hafa sennilega verið talsverðar strax á landnámsöld. Lagaumhverfi okkar hefur ávallt tekið mikið mið af því, og er athyglisvert að svo sé enn. Engin heildstæð lög um vernd, veiðar og velferð sela og hvala eru fyrir hendi en þessar tegundir falla ekki undir hin svokölluðu villidýralög (nr. 64/1994). Líta má svo á að málefni sela séu í sérlega slæmum farvegi. Ekki er gerð krafa um veiðikort eða menntun selveiðimanna við selveiðar og er veiðistjórnun og skráning veiða hverfandi. Margir alþjóðlegir samningar á sviði náttúruverndar sem Ísland hefur fullgilt leggja ríka áherslu á verndun lífríkis, að nytjar séu sjálfbærar og að fyrir hendi séu öflug stjórntæki til að tryggja hvort um sig. Íslenskt laga- og stjórnsýsluumhverfi varðandi vernd, veiðar og velferð sela og hvala er því ófullnægjandi. Í erindinu verður farið nánar yfir þessa þætti og rætt hvaða úrbóta sé þörf, en þær ættu m.a. að fela í sér endurskoðun á lagaumhverfi sela og hvala, stofnun verndarsvæða fyrir þessa tegundahópa, auknar rannsóknir og gerð íslensks válista fyrir spendýr. Þá verður að huga að aðgerðum sem verja þessar tegundir fyrir tilteknum atvinnuvegum. Vísið er til skýrslunnar „Vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra“ eftir höfunda þessa erindis o.fl. varðandi nánari umfjöllun um efnið.