Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Erindi 55Vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra. Tilkoma úttektar á lagalegri og stjórnsýslulegri stöðu og forsendur nefndarMenja von Schmalensee (1), Kristinn Haukur Skarphéðinsson (2), Hildur Vésteinsdóttir (3), Tómas Grétar Gunnarsson (4), Auður L. Arnþórsdóttir (5) og Hólmfríður Arnardóttir (6,6,6)

1) Náttúrustofa Vesturlands
2) Náttúrufræðistofnun Íslands
3) Umhverfisstofnun
4) Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi
5) Matvælastofnun
6) Fuglavernd

Kynnir/Tengiliður: Menja von Schmalensee (menja@nsv.is)

Í maí 2013 kom út viðamikil skýrsla nefndar umhverfis- og auðlindaráðherra, sem fjallar um lagalega og stjórnsýslulega stöðu villtra fugla og spendýra Íslands. Skýrslan er afrakstur vinnu er hófst haustið 2010 og er í henni leitast við að setja regluverk í samhengi við líffræði tegundanna sem um ræðir. Settur er fram fjöldi tillagna um úrbætur til að tryggja viðundandi vernd þessara lífveruhópa og að veiðar á þeim séu sjálfbærar. Úttektin er hugsuð sem grunnur sem á má byggja áframhaldandi vinnu að gerð nýrra laga um vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra, en getur einnig nýst í ýmsu öðru samhengi. Í erindinu verður fjallað stuttlega um tilkomu skýrslunnar og forsendur nefndarinnar, en nefndinni var gert að horfa á málaflokkinn í víðu samhengi og tóku tillögur m.a. mið af 1) þeim alþjóðlegu samningum sem Ísland er aðili að og varða verndun villtra spendýra og fugla og veiðar á þeim ásamt öðrum alþjóðlegum samningum, tilskipunum og tilmælum sem máli skipta og 2) helstu meginreglum umhverfisréttar sem varða málaflokkinn. Nefndin tók til skoðunar öll helstu lög og reglugerðir sem tengjast villtum fuglum og spendýrum beint eða óbeint. Þá lagði hún áherslu á umfangsmikið samráð við bæði fag- og hagsmunaaðila og leitaðist við, eftir því sem hægt var, að samþætta öll þau ólíku sjónarmið sem fram komu. Loks mótaði hún fjölda meginreglna um vernd, velferð og veiðar, sem tillögur um úrbætur byggja á.