Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Erindi 64



Vöktun umhverfisþátta í nokkrum vötnum suðvestanlands



Stefán Már Stefánsson, Haraldur R. Ingvason, Finnur Ingimarsson og Þóra Hrafnsdóttir

Náttúrufræðistofa Kópavogs

Kynnir/Tengiliður: Stefán Már Stefánsson (stefanmar@natkop.is)

Náttúrufræðistofa Kópavogs hefur vaktað eðlisþætti í nokkrum vötnum á höfuðborgarsvæðinu frá maí 2004. Mælingar á vatnshita, sýrustigi og rafleiðni eru reglubundnar; tvisvar í mánuði á sumrin og einu sinni í mánuði að vetri. Árið 2008 var mælingu á blaðgrænu-a bætt við til að meta magn sviflægra þörunga í vötnunum.

Í maí 2007 hófst vöktun á nokkrum þáttum er tengjast lífríki Þingvallavatns. Í fjórum ferðum frá maí til október eru gerðar mælingar á vatnshita, sýrustigi, rafleiðni og súrefni ásamt því að tekin eru sýni til mælinga á dýra- og plöntusvifi. Vatnshiti hefur einnig verið mældur með síritandi hitamælum frá yfirborði niður á 40 m dýpi síðan í lok júní 2010. Vorið 2013 voru síritandi hitamælar einnig lagðir út í Hafravatni, einkum til samanburðar við Þingvallavatn.

Í ljós hefur komið að á tímabilinu frá 2004 til 2011 jókst rafleiðni í vötnunum á höfuðborgarsvæðinu jafnt og þétt í takt við hækkun lofthita en frá 2011 virðist þróunin vera heldur í hina áttina. Rafleiðni í Hafravatni hefur sýnt örustu breytingarnar og hefur í raun verið á niðurleið frá 2009.

Hvað varðar Þingvallavatn sést að allglögg hitaskil mynduðust í vatninu sumrin 2010 til 2012 en svo virðist sem ástandið hafi verið annað sumarið 2013. Ferlar sýrustigs og magns blaðgrænu endurspegla allvel lagskiptinguna í vatninu.

Fjallað verður um framvindu ofangreindra þátta í mismunandi vötnum og mögulega áhrifavalda í tíma og rúmi.