Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Erindi 72Nýrnaveiki í þremur hópum laxfiska: þrenns konar greiningaraðferðum beitt á sýni úr þremur líffærumÍvar Örn Árnason, Árni Kristmundsson og Sigríður Guðmundsdóttir

Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum

Kynnir: Ívar Örn Árnason
Tengiliður: Sigríður Guðmundsdóttir (siggag@hi.is)

Bakterían, Renibacterium salmoninarum, veldur nýrnaveiki (BKD) í laxfiskum. Sjúkdómurinn er aðallega vandamál í eldi en sjúkdómurinn gerir vart við sig í einstökum tilföllum í villtum fiskum. Þar sem hvorki sýklalyf né bóluefni hafa fullnægjandi virkni gegn bakteríunni er áhrifaríkasta aðferðin í baráttunni gegn sjúkdómnum að eyða hrognum undan sýktum hrygnum, því bakterían smitast bæði á milli einstaklinga og á milli kynslóða. Þ.a.l. er mikilvægt að hafa næmar aðferðir til að greina bakteríuna í hrygnunum.

Bakteríuræktun, ELISA og PCR, voru notaðar til að greina nýrnaveikibakteríuna í mismunandi vefjagerðum. Í hópi 1 eru klaklaxar úr eldisstöð með virka sýkingu og aðeins var ein sýnataka framkvæmd og var hún á klaktíð. Í hópi 2 eru bleikjuseiði sem voru sýkt með því að sprauta bakteríunni í kviðarhol (i.p. injection). Í þriðja hópnum var sett upp samvistarsmitstilraun með bleikjuseiðum. Úr hópum 2 og 3 voru sýni tekin 4-6 sinnum á 8 mánaða tímabili.

Niðurstöður úr þessum 3 hópum sýndu einkennandi mynstur. Því hærra sem ELISA gildið var í hópi 1, því fleiri sýni voru jákvæð með öðrum aðferðum sem voru prófaðar. Í hópum 2 og 3 voru mörg jákvæð sýni í fyrstu sýnatöku með öllum aðferðum. ELISA gildin hækkuðu fyrstu mánuðina en undir lok tilraunar fóru gildin að lækka á ný. Eftir 8 mánuði voru öll ræktunarsýni neikvæð og fjölda jákvæðra sýna í PCR hafði fækkað.