Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Erindi 22Vöktun eitraðra svifþörunga við ÍslandHafsteinn G. Guðfinnsson (hafgud@hafro.is)

Hafrannsóknastofnun

Í fyrirlestrinum verður sagt frá helstu tegundum svifþörunga í sjó, sem valdið geta vandamálum í fiskeldi, kræklingarækt og nýtingu á skelfiski við Ísland. Vöktun á eiturþörungum, sem orsakað geta eitranir í skelfiski, hefur farið fram í fjórum til fimm íslenskum fjörðum frá árinu 2005. Sjósýni eru tekin og greind þar sem skelfiskur er nýttur. Vöktun eiturþörunga tengist því kræklingarækt, kræklingatínslu og veiðum á skeljum til manneldis. Svifþörungar eru megin æti kræklings, þar með taldir eitraðir svifþörungar. Neysla kræklings getur því verið varasöm þegar eitraðir svifþörungar eru til staðar í sjónum.

Greint verður frá niðurstöðum þriggja ára (2010-2012) varðandi vöktun eiturþörunga sem geta valdið eitrunum í skelfiski. Aðallega er um að ræða eina ættkvísl kísilþörunga, Pseudonitzschia og tvær ættkvíslir skoruþörunga, Dinophysis og Alexandrium. Nokkrar tegundir teljast til hverrar ættkvíslar.

Niðurstöður vöktunarinnar sýna að þessar þrjár ættkvíslir finnast í öllum íslenskum fjörðum sem hafa verið kannaðir. Þær sýna líka að frumufjöldi þessara tegunda er oft svo hár að hætta getur verið á eituruppsöfnun í skelfiski sem getur valdið alvarlegum veikindum hjá fólki sem neytir eitraðs kræklings. Eiturefnin PSP (paralytic shellfish poison) og DSP (diarrhetic shellfish poison) hafa mælst í íslenskum kræklingi samhliða eða í kjölfar þess að Alexandrium og Dinophysis tegundir hafa fundist í sjósýnum. Af þessum sökum hefur þurft að fresta uppskeru eða tínslu kræklings vikum og jafnvel mánuðum saman í fjörðum þar sem kræklingarækt og kræklingatínsla fer fram.