Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Erindi 21



Fjölbreytni botndýrasamfélaga, vísitegundir og lífrænt álag



Þorleifur Eiríksson (1), Ólafur Ögmundarson (2), Guðmundur Víðir Helgason (3) og Böðvar Þórisson (1)

1) Náttúrustofa Vestfjarða
2) Matís
3) Háskóli Íslands

Kynnir/Tengiliður: Þorleifur Eiríksson (the@nave.is)

Þekking á áhrifum lífrænnar mengunar á botndýralíf vegna fiskeldis og af öðrum toga er oft ábótavant. Það stafar einkum af því að athuganir vantar oft: áður en eldi hefst, á eldistímanum og þegar eldi hefur runnið sitt skeið. Það eru göt í þekkingunni um hvernig botndýralífið svarar lífrænu álagi en einnig hvernig samsetning botndýralífs er við mismunandi náttúrulegar aðstæður.

Vestfirðir henta sérlega vel fyrir botndýrarannsóknir því þar er tiltölulega auðveldur aðgangur að mjög ólíkum búsvæðum og svæðum undir mismunandi umhverfisálagi.

Niðurstöður þessa verkefnis gefa ágæta mynd af botndýrasamfélögum á mjúkum botni í Ísafjarðardjúpi. Hvernig samsetning botndýrasamfélaga er þar bæði við náttúrulegar aðstæður og undir álagi auk þess hve fjölbreytnin getur verið mismunandi. Af þeim stöðvum sem voru teknar var botndýralífið fjölbreyttast út af Óshlíðinni við Bolungarvík, en minnst innan þröskulds Hestfjarðar en báðir þessir staðir eru undir litlu lífrænu álagi. Stöðvar sem eru undir miklu álagi frá fiskeldi sýna lítinn fjölbreytileika í botndýralífi en þær stöðvar sem eru undir litlu álagi geta sýnt nokkuð háan fjölbreytileika.

Vísitegundir eru tvenns konar, þeim sem fjölgar og þeim sem fækkar við uppsöfnun lífrænna leifa. Bestur árangur við að meta lífræna álagið næst með því að nota hlutföll slíkra tegunda. Mikilvægasta verkefnið er að skilgreina betur hlutföll vísitegunda, sem fækkar og fjölgar við mismunandi álag.