Líffræðifélag Íslands
Líffræðiráðstefnan 2013
Erindi 53



Rannsóknir á arfgengri heilablæðingu - meingerð og frumulíffræði



Birkir Þór Bragason (1), Ásbjörg Ósk Snorradóttir (1), Gustav Östner (2), Björn Þór Aðalsteinsson (1), Helgi J. Ísaksson (3), Elías Ólafsson (4) og Ástríður Pálsdóttir (1)

1) Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum
2) Department of Clinical Chemistry and Pharmacology, Lund University Hospital
3) Rannsóknastofa í meinafræði, Landspítali Háskólasjúkrahús
4) Taugalækningadeild, Landspítali Háskólasjúkrahús

Kynnir/Tengiliður: Birkir Þór Bragason (birkirbr@hi.is)

Arfgeng heilablæðing er sjaldgæfur séríslenskur erfðasjúkdómur sem stafar af stökkbreytingu í geni cystatin C, CST3. Sjúkdómurinn telst til mýlildissjúkdóma v.þ.a. stökkbreytt cystatin C prótín myndar mýlildi í ýmsum vefjum, en aðallega í slagæðaveggjum heilans þar sem uppsöfnunin leiðir til heilablæðinga í ungum arfberum.  Undanfarin ár hefur verið unnið að rannsóknum á þessum sjúkdómi á Keldum með það markmið að auka skilning á sjúkdómnum og þeim ferlum sem liggja til grundvallar meinafræði hans. Ónæmislitanir á heilaslagæðum í vefjasýnum sjúklinga sýna að auk uppsöfnunar á cystatin C mýlildi í æðaveggjum er mikil uppsöfnun á utanfrumuefni. Uppsöfnun utanfrumuefnis greinist líka í sumum tilfellum í æðum utan heilans. Í heila, sem og ytri vefjum, er uppsöfnun á utanfrumuefnunum collagen IV og aggrecan áberandi. Ekki er til dýralíkan af arfgengri heilablæðingu og því hefur verið unnið að því að skilgreina frumulíkan til að greina ferla sem liggja til grundvallar sjúkdómsmyndinni. Sú frumugerð sem hefur verið notuð eru húðfíbróblastar. Rannsóknir  á heildargenatjáningu sýna að arfberafrumur hafa aukna framleiðslu utanfrumuefna m.a. collagen IV og aggrecan. Samsvörunin á milli meingerðar sjúkdómsins og genatjáningar húðfíbróblastanna bendir til þess að þeir geti gagnast við að skilgreina afmarkaða sjúkdómsferla arfgengrar heilablæðingar.